Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Frekari lokanir í Bandaríkjunum óþarfar

19.06.2020 - 01:47
epa08378500 US President Donald J. Trump (L) and Anthony Fauci, Director of the National Institute of Allergy and Infectious Diseases, are joined by members of the Coronavirus Task Force to deliver remarks on the COVID-19 pandemic in the James S. Brady Press Briefing Room of the White House in Washington, DC, USA, 22 April 2020.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS / POOL
Donald Trump og Anthony Fauci á fundi með fréttamönnum í Hvíta húsinu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Ekki þarf að beita frekara útgöngubanni til þess að ná stjórn á útbreiðslu kórónuveirufaraldursins í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að greindum smitum sé ekki að fækka á landsvísu. Anthony Fauci, forstöðumaður ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, greindi AFP fréttastofunni frá þessu í gær.

Hann telur ekki nauðsynlegt að beita frekari lokunum, heldur eigi að reyna að ná betri stjórn á faraldrinum á þeim svæðum þar sem smitum hefur verið að fjölga.

Faraldurinn hefur dreift verulega úr sér í Bandaríkjunum. Hann er nú í rénun í New York og New Jersey, þar sem hann var hvað verstur til að byrja með. Daglega greinast á milli 20 og 30 þúsund smit á landsvísu, og hefur þungamiðjan nú færst frá austurströndinni til ríkja í suður- og vesturhluta Bandaríkjanna. Alls hafa nærri 2,2 milljónir COVID-19 smita greinst í Bandaríkjunum og yfir 118 þúsund eru látnir af völdum sjúkdómsins. Nærri 700 létu lífið vegna hans í gær, og er það áttundi dagurinn í röð sem færri en þúsund deyja af völdum COVID-19.