Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

LoveStar - Andri Snær Magnason

Mynd: andrisnaer.is / andrisnaer.is

LoveStar - Andri Snær Magnason

18.06.2020 - 08:14

Höfundar

LoveStar eftir Andra Snæ Magnason er hrollvekja og vísindaskáldsaga um stórhugmyndasmiðinn LoveStar og skemmtigarð hans í Öxnadalnum. Bókin, sem kom fyrst út árið 2002, þykir hafa hitt ótrúlega naglann á höfuðið varðandi það sem koma skyldi á sviði tækni og samskipta framtíðarinnar.

LoveStar var fyrsta skáldsaga Andra Snæs fyrir fullorðna en Andri hafði þá sent frá sér tvær ljóðabækur og barnabókina Sagan af bláa hnettinum. LoveStar náði strax miklum vinsældum og prentuð í fjórum upplögum árið sem hún kom ú. Bókin hefur síðan verið endurútgefin tvisvar sinnum síðan, síðast árið 2007, og verið þýdd á fjölda tungumála.

LoveStar er vísindaskáldsaga um LoveStar, sannkallaðan athafnamann á Íslandi sem sér mikil tækifæri í nýjum heimi þar sem allt hefur meira og minna riðlast. Á endanum hefur hann byggt upp stórkostlegan skemmtigarð inn í fjöllunum í Öxnadal þar sem ástarstjarna skín yfir Hraundranga.

Skáldsagan LoveStar hefst á ljóði sem fjallar um upphaf alls, fræið sem þarf til að eitthvað geti vaxið upp og dafnað. Hér má heyra Andra Snæ lesa upphaf bókarinnar og annan kafla þar sem segir frá aðalpersónunni LoveStar sem fæddist daginn sem maðurinn sté í fyrsta sinn fæti sínum á tunglið. Á milli lestranna segir Andri frá sögunni, tilurð hennar og vegferð.  

Umsjónarmaður þáttarins Bók vikunnar er Jóhannes Ólafsson sem ræðir á sunnudaginn við þau Hörpu Rún Kristjánsdóttur bókmenntafræðing og Emil Hjörvar Petersen rithöfund.

 

Mynd: Forlagið / Forlagið