Milljónasektir fyrir ölvunarakstur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrír menn hafa síðustu daga verið dæmdir til að greiða eina til tvær milljónir króna hver fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og önnur umferðarlagabrot. Samanlagt nema sektargreiðslur mannanna þriggja rúmum fimm milljónum króna.

Héraðsdómur Reykjaness sakfelldi mann fyrir fjögur umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot fyrir að aka bíl undir áhrifum fíkniefna. Sá fékk sekt upp á 1,7 milljónir króna. Aðeins fjórum mánuðum áður fékk hann tveggja milljóna króna sekt fyrir umferðarlagabrot og vörslu fíkniefna. Rúmlega ári áður hafði hann fengið 280 þúsund króna sekt.

Annar maður var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann hafði þrisvar verið staðinn að ölvunarakstri og einu sinni fyrir akstur sviptur ökuréttindum. Sá var dæmdur til 1,3 milljóna króna sektargreiðslu. 

Þriðji maðurinn var einnig sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sá var þrisvar staðinn að akstri undir áhrifum fíkniefna og einu sinni fyrir akstur án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Hann var dæmdur til að greiða tæpar 1,4 milljónir króna.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi