Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fleiri reiðubúin að greiða fyrir Netfréttir

16.06.2020 - 05:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sífellt fleira fréttaþyrst fólk hefur tekið til við að borga fyrir aðgang að fréttaveitum á Netinu. Sú þróun hefur orðið jafnhliða vaxandi vantrú á fjölmiðla almennt.

Þetta sýnir könnun Digital News Report, gerð er á vegum Reuters sem birt er í dag og náði til 40 landa. Könnunin var gerð eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á.

Um fimmti hver aðspurðra Bandaríkjamanna kvaðst hafa keypt áskrift að netfréttaveitu, 42% Norðmanna hafa gert hið sama og 13 af hundraði Hollendinga. Tíundi hver Frakki og Þjóðverji segist nú borga fyrir aðgang að fréttum á Netinu.

Allt að helmingur áskriftargreiðslna rennur þó til fáeinna stórra fjölmiðlasamsteypa, á borð við New York Times. Í könnunni kemur þó fram að æ fleiri kaupi aðgang að fleiri en einni fréttaveitu, yfirleitt einni stórri og svo smærri sem flytji fréttir af heimaslóðum eða fjalli um áhugamál viðkomandi.

Enn er þó fjölmargt fólk sem segir að ekkert gæti fengið það til að borga fyrir fréttir á Netinu; hlutfallið er um 40% í Bandaríkjunum og helmingur Breta er á því máli.

Könnunin sýndi aukinn áhuga á sjónvarpsfréttum sem verða þá helsta uppspretta vitneskju fólks ásamt vefmiðlunum. Á hinn bóginn hefur útbreiðsla dagblaða dregist verulega saman á tímum kórónuveirunnar.

Fyrsta könnunin af þessu tagi var gerð árið 2012 en vantraust gagnvart fjölmiðlum hefur aldrei verið meira en nú. Að jafnaði segist um 38 af hundraði segist yfirleitt treysta fréttaflutningi þeirra.

Traustið er þó breytilegt eftir löndum. Finnar og Portúgalir virðast nokkuð sannfærðir um sannleiksgildi fréttaflutnings í fjölmiðlum. Um 56% í hvoru landi kváðu fjölmiðla traustins verða.

Vantraustið er öllu meira meðal Frakka en 23% þeirra og 21% Suður-Kóreumanna sagðist bera traust til fjölmiðla. Tiltrú Hong Kong búa hrapaði um 16 prósentustig á milli kannana niður í 30%. Sú niðurstaða er rakin til óróleika vegna umdeildra framsalslaga og mikilla mótmæla á svæðinu.

Svipað var uppi á teningnum í Chile og í Bretlandi, sem hefur verið klofið vegna Brexit, skrapp traust til fréttaflutnings saman um 12 af hundraði.