Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þrefalt fleiri nemar starfa í Þingeyjasýslum í sumar

Um tuttugu háskólanemar starfa hjá Þekkingarneti Þingeyinga í sumar. Þekkingarnetið tók málin í sínar hendur, þegar efnahagsaðgerðir vegna COVID-19 voru kynntar í vor, og fjölgaði störfum.

Margir háskólanemar vinna við ferðaþjónustu á sumrin. Flestir sem höfðu ráðið sig til slíkra starfa misstu þá vinnu vegna faraldursins. Þekkingarnet Þingeyinga brást við með því að fjölga til muna stöðugildum fyrir háskólanema sem tóku framtakinu fagnandi.

„Við í rauninni höfðum frumkvæði að því að bregðast við þessum aðstæðum. Háskólanemar höfðu samband við okkur, býsna margir. Við fórum á fullt í það að reyna að fjármagna verkefni og það endaði með því að við erum með 19 háskólanema í vinnu þetta sumarið. Þar með þreföldum við starfsmannafjöldann hjá okkur.“ segir Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga.

Þekkingarnetið vinnur verkefnið í samstarfi við sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum. Verkefni háskólanema eru af ýmsum toga enda koma þeir úr ólíkum skólum og deildum. Nemendur eiga flestir rætur að rekja til Þingeyjasýslna og starfsstöðvar þeirra dreifast um svæðið. Þau segja að framtakið sé mjög kærkomið.

„Það breytir alveg mjög miklu. Ég var kominn með aðra vinnu sem tengdist ekkert náminu mínu, það hefði bara verið til að eiga salt í grautinn fyrir veturinn.“ segir Ragnar Þór Birkisson, nemi í rafmagnstæknifræði í Háskólanum í Reykjavík. Hann vinnur að opnun tæknismiðju á Húsavík í sumar.

Námsmenn hafa margir hverjir átt erfitt með að fá störf við hæfi í sumar, og störf yfir höfuð.

„Þeir sem eru vanir að vera til dæmis í ferðamannabransanum, þeir eru ekkert í góðum málum núna. Það er ekkert auðvelt að fá að kynnast rannsóknarvinnu sem nemi.“ segir Dagný Theodórsdóttir, nemi í sálfræði við Háskólann á Akureyri en hún er að vinna verkefni í tengslum við fjarvinnu á Norðurlandi Eystra.

Óli Halldórsson segir að forsendan sé fyrst og fremst sú að háskólanema vantaði vinnu og það sé þeirra reynsla að út úr vinnu háskólanema komi verðmætar niðurstöður.  Nemendurnir sjá jafnvel fyrir sér að snúa alfarið aftur í heimahagana að námi loknu.

Hvað með svona framhaldið, heldurðu að það að þú sért farinn að vinna verkefni hérna skapi einhverja gulrót fyrir þig að koma aftur í heimahagana?

Já klárlega. Það er mjög gott að komast heim á sumrin og fá eitthvað sem tengist mínu námi og því sem ég er að gera. Það hjálpar mjög mikið.“ segir Brynjar Örn Arnarson, nemi í jarðfræði við Háskóla Íslands, en hann vinnur við jarðskjálftamælingar í þéttbýli.