Þriðji maðurinn fannst á höfuðborgarsvæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Þriðji maðurinn sem lýst var eftir í tengslum við COVID-smitaða þjófa er fundinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hinir tveir mennirnir fundust í morgun eftir að þeir skráðu sig inn á hótel. Hvorugur reyndist vera smitaður. Þriðji maðurinn var sendur í sýnatöku hjá veirufræðideildinni og þarf síðan að fara í sóttkví í farsóttahúsinu við Rauðarárstíg. Niðurstöðu úr sýnatökunni er að vænta síðar í kvöld eða fyrramálið.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, segir í samtali við fréttastofu að maðurinn hafi fundist á höfuðborgarsvæðinu. 

Þar með eru allir sex í þessum hópi komnir í leitirnar en fólkið kom til landsins með flugi á miðvikudag frá Luton og áttu samkvæmt núgildandi reglum að fara í tveggja vikna sóttkví.   Þær reglur breytast á miðnætti í kvöld þegar fólk getur farið í skimun.

Þau tvö sem reyndust með COVID-19 voru flutt síðdegis í dag frá lögreglustöðinni á Selfossi til Reykjavíkur. 

Víðir segir að fólkið hafi ekki gefið upp sama gististað við komuna til landsins. Við nánari eftirgrennslan hafi komið í ljós að þangað hafði það aldrei komið. Þeir þrír sem voru handteknir á föstudag vegna gruns um þjófnað hafa þó neitað því að þekkja hina þrjá. 

Víðir segir það þó ánægjulegt að ekki hafi fleiri þurft að fara í sóttkví vegna þeirra tveggja sem voru jákvæðir en 11 lögreglumenn af Suðurlandi eru frá vinnu vegna málsins.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi