Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Færeyingar undirbúa viðbrögð snúi Covid 19 aftur

14.06.2020 - 23:54
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Færeyingar hafa núna verið lausir við kórónuveiruna í meira en mánuð. Möguleikinn á að veiran skjóti aftur upp kollinum eru þó alltaf fyrir hendi. Undanfarið hefur landsstjórnin unnið að áætlun um hvernig skuli bregðast við því.

Bárður Nielsen lögmaður Færeyja lýsti yfir ánægju sinni með árangurinn snemma í maí. Þá þakkaði hann öllum Færeyingum fyrir að hafa af mikilli ábyrgð tekist á við þetta erfiða sameiginlega verkefni.

Nú fullvissar lögmaðurinn landa sína um að landsstjórnin hafi mun meiri þekkingu á hegðun veirunnar en fyrir nokkrum mánuðum.

Því sé hún mun betur í stakk búin að bregðast við nú, og með öðrum hætti en áður. KomiCovid-19 aftur upp í Færeyjum segir lögmaðurinn ólíklegt að gripið verði til útgöngubanns eins og gert var umsvifalaust í mars. Þá höfðu þrjú tilfelli greinst.

Landsstjórnin muni hins vegar sjá til þess halda aftur af útbreiðslu veirunnar með því að þau sem komast í snertingu við hana og smitist verði þegar sett í sóttkví. Hið sama þurfi að ganga yfir öll þau sem smitaðir hafi umgengist.