Vegagerð varar við tjörublæðingum í miklum hita eystra

12.06.2020 - 12:38
Mynd með færslu
Malbiksblæðingar hafa einnig gert vart við sig fyrir norðan. Þessi mynd var tekin af malbiki í Skarðshlíð fyrir helgi. Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Vegagerðin varar bílstjóra við tjörublæðingum á vegum á Austurlandi í dag. Í gær flaut tjara upp úr vegum, bæði á Fjarðarheiði og í Norðfirði í miklum hitum. Flutningabílstjóri sem fer um Fjarðarheiði segir að þetta geri vegi hála, svo ekki sé minnst á óþrifnað.

„Þetta hleðst á allt. Hjólin náttúrlega ausa þessu upp og svo hleðst þetta neðan í bílana og utan á þá og aftan á þá. Það eru aðallega leiðindi sem fylgja þessu. Það var tjörublæðing bæði uppi á háheiðinni og mikil blæðing í Neðri stafnum og búið að reyna að loka því með því að setja sand í það og ábyggilega ekki gaman að vera á ferðinni á mótorhjóli á svona stað,“ segir Agnar Sverrisson, svæðisstjóri Smyril Line á Seyðisfirði.

Vegblæðingar verða við ákveðnar aðstæður, til dæmis í miklum hita, og þegar þungir bílar fara um pressa þeir tjöruna upp úr slitlaginu. Slíkar blæðingar hafa verið tengdar notkun á umhverfisvænum lífolíum við lagningu slitlags.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni á Austurlandi voru vegblæðingar á um kílómetra kafla í Neðri staf á Fjarðarheiði og á stöku blettum uppi á heiðinni. Einnig á um 300 metra kafla í Norðfirði rétt áður en ekið er inn í Neskaupstað og dreifði Vegagerðin hálkusandi í tjöruna.

Veghitinn fór yfir 35 gráður á Fjarðarheiði

Í gær fór hitinn yfir 20 stig á Austurlandi. Svört klæðningin drekkur í sig sólskinið og á Fjarðarheiði mældist veghitinn 35 gráður klukkan hálf fimm. Í dag er því spáð að hiti nái 23 stigum á Héraði og ætlar Vegagerðin að vera með aukið eftirlit með vegum til að geta brugðist skjótt við ef vart verður blæðinga. Bílstjórar eru beðnir að vara sig á slitlagskögglum, hægja á ef bílar mætast og hreinsa tjöru úr munstri dekkja áður en haldið er í langferðir.  „Það sem ég hef kannski mestar áhyggjur af er að vegurinn er háll og að fólk átti sig ekki á þessu. Fari sér að voða á þessu. Það mætti alveg merkja þessa blæðingakafla betur og hreinlega takmarka hraða á þeim,“ segir Agnar.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi