Sjófær sumarbústaður í smíðum á Húsavík

12.06.2020 - 00:11
Sumarbústaður hefur vakið athygli vegfarenda á Húsavík enda stendur hann í slipp við höfnina. Verið er að leggja lokahönd á bústaðinn sem getur hýst stóra fjölskyldu og siglt á milli staða.

Skipið var upphaflega smíðað í Stykkishólmi fyrir Húsvíkinga árið 1975 og var um árabil gert út frá Húsavík, Siglufirði, Grindavík og víðar. Eigandi þess gerði það síðast út frá Siglufirði en hætti útgerð árið 2017. Þá datt honum í hug að innrétta skipið sem sjófæran sumarbústað. Vélin var endurnýjuð áður en siglt var til Húsavíkur seinni part sumars í fyrra og hafa átta manns unnið að smíðinni í vetur. Vinnustundirnar eru hátt í 17 þúsund og meðal annars var brúin endurnýjuð. 

„Það er svona einhver íhaldssemi og hérna mig langar að varðveita hluti og er ekki mikið fyrir að skipta. Ég er til dæmis giftur sömu konunni ennþá og svo hefur þetta náttúrulega menningarlegt gildi. Ég er svolítið svag fyrir því.“ segir Gunnar Júlíusson, eigandi skipsins.

Húsvíkingar hafa í tímans rás byggt upp þekkingu og færni í að gera upp eikarbáta og skip. Það var aðalástæða þess að Gunnar ákvað að fá þá til liðs við sig. Báturinn stendur í slipp í Húsavíkurhöfn og vekur mikla athygli bæjarbúa og annarra.

„Hérna er náttúrulega mekka eikarskipanna á Íslandi. Við erum svo heppin að hafa þessa aðstöðu hérna. Þetta vekur mikla athygli og líka bara staðsetningin hérna. Við erum þannig staðsettir með þetta að þetta fer ekki framhjá neinum.“ segir Kristján yfirsmiður

Báturinn verður nefndur Örkin og stefnt er að því að sjósetja hann nú í júní. Hvað svo tekur við verður tíminn að leiða í ljós.

„Ég ætla nú bara að leika mér á þessu svona til að byrja með á meðan ég nenni. Svo er aldrei að vita, það er nú svolítil eftirspurn eftir honum í alls konar verkefni, túrisma og því um líkt. Það er alveg óskrifað blað hvað verður.“ segir Gunnar.
 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi