
Andar köldu milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna
Norður-Kóreumenn hafa undanfarið sent stjórninni í Washington naprar pillur og sömuleiðis nágrönnum sínum í Suður Kóreu.
Nýjasta útspil norðanmanna kom daginn eftir að þeir gáfu í skyn að þeir fyrirhugðu afskipti af forsetakosningunum vestra nema Bandaríkjamenn hættu þegar afskiptum af innanríkismálum Norður-Kóreu.
Undanfarna daga hefur stjórnin í Pyongyang úthúðað grönnum sínum vegna liðhlaupa sem hefðu dreift áróðri gegn Kim norðuryfir. Það væri ástæða þess að þeir hefðu skorið á öll samskipti við stjórnina í Seoul.
Orrahríðin sem nú beinist að Bandaríkjunum þykir örugg vísbending þess að útilokað verði fyrir ríkin tvö að halda áfram afvopnunarviðræðum.
Utanríkisráðherra Norður-Kóreu, Ri Son Gwon, ber Bandaríkjamönnum hræsni á brýn og fullyrðir að vonarbjarminn frá 2018 sé orðinn að drungalegri martröð.
Norður-Kóreustjórn væri orðin fullsödd af því að gefa eftir án þess að fá nokkuð í staðinn. Þeim orðum var einkum beint að Trump. Heldur var glaðlegra yfir Trump og Kim í Singapore fyrir tveimur árum, í fyrsta sinn sem leiðtogi Norður-Kóreu hitti Bandaríkjaforseta.
Trump says this -- earnestly! -- about Kim Jong Un: "We went back and forth, then we fell in love. He wrote me beautiful letters. And they are great letters. We fell in love." pic.twitter.com/05KpsRgkZJ
— Aaron Rupar (@atrupar) September 30, 2018
Sá síðarnefndi fullyrti eftir fundinn að öll kjarnorkuógn frá Norður Kóreu væri að baki og lýsti yfir ást sinni á Kim. Þó voru öll loforð um afvopnun harla tvíræð. Enda varð vonin um að unnið yrði að útrýmingu kjarnorkuvopna á Kóreuskaga að engu eftir fund leiðtoganna í Hanoi í fyrra.
Þar strandaði einfaldlega á því að Kim Jong Un var ekki tilbúinn að láta vopnabúr sitt af hendi og Bandaríkjamenn vildu ekki láta af viðskiptaþvingunum.
Þriðji fundur þeirra sem haldinn var á á hlutlausa svæðinu milli Kóreuríkjanna tveggja skilaði engum árangri heldur.
Því er svo komið að samskipti ríkjanna þriggja eru aftur orðin ísköld og einkennast af hatrömmum kveðjum í stað ástarbréfanna sem Trump Bandaríkjaforseti talaði um fyrir nokkrum misserum.