Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Andar köldu milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna

12.06.2020 - 06:30
President Donald Trump meets with North Korean leader Kim Jong Un at the border village of Panmunjom in the Demilitarized Zone, South Korea, Sunday, June 30, 2019. (AP Photo/Susan Walsh)
 Mynd: AP
Stjórnin í Norður-Kóreu fordæmir Donald Trump og Bandaríkin harðlega í dag þegar þess er minnst að tvö ár eru liðin frá sögulegum fundi forsetans og Kim Jong Un.

Norður-Kóreumenn hafa undanfarið sent stjórninni í Washington naprar pillur og sömuleiðis nágrönnum sínum í Suður Kóreu.

Nýjasta útspil norðanmanna kom daginn eftir að þeir gáfu í skyn að þeir fyrirhugðu afskipti af forsetakosningunum vestra nema Bandaríkjamenn hættu þegar afskiptum af innanríkismálum Norður-Kóreu.

Undanfarna daga hefur stjórnin í Pyongyang úthúðað grönnum sínum vegna liðhlaupa sem hefðu dreift áróðri gegn Kim norðuryfir. Það væri ástæða þess að þeir hefðu skorið á öll samskipti við stjórnina í Seoul.

Orrahríðin sem nú beinist að Bandaríkjunum þykir örugg vísbending þess að útilokað verði fyrir ríkin tvö að halda áfram afvopnunarviðræðum.

Utanríkisráðherra Norður-Kóreu, Ri Son Gwon, ber Bandaríkjamönnum hræsni á brýn og fullyrðir að vonarbjarminn frá 2018 sé orðinn að drungalegri martröð.

Norður-Kóreustjórn væri orðin fullsödd af því að gefa eftir án þess að fá nokkuð í staðinn. Þeim orðum var einkum beint að Trump. Heldur var glaðlegra yfir Trump og Kim í Singapore fyrir tveimur árum, í fyrsta sinn sem leiðtogi Norður-Kóreu hitti Bandaríkjaforseta.

Sá síðarnefndi fullyrti eftir fundinn að öll kjarnorkuógn frá Norður Kóreu væri að baki og lýsti yfir ást sinni á Kim. Þó voru öll loforð um afvopnun harla tvíræð. Enda varð vonin um að unnið yrði að útrýmingu kjarnorkuvopna á Kóreuskaga að engu eftir fund leiðtoganna í Hanoi í fyrra.

Þar strandaði einfaldlega á því að Kim Jong Un var ekki tilbúinn að láta vopnabúr sitt af hendi og Bandaríkjamenn vildu ekki láta af viðskiptaþvingunum.

Þriðji fundur þeirra sem haldinn var á á hlutlausa svæðinu milli Kóreuríkjanna tveggja skilaði engum árangri heldur.

Því er svo komið að samskipti ríkjanna þriggja eru aftur orðin ísköld og einkennast af hatrömmum kveðjum í stað ástarbréfanna sem Trump Bandaríkjaforseti talaði um fyrir nokkrum misserum.