Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Framhaldsskólanemar vonsviknir með lög um Menntasjóð

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Samband íslenskra framhaldsskólanema hefur lýst yfir vonbrigðum sínum með að frumvarp um Menntasjóð námsmanna hafi verið samþykkt á Alþingi án þess að gert væri ráð fyrir stuðningi við bóknámsnemendur í framhaldsskólum.

Sambandið kveðst iðulega hafa bent á að nemendur á hinum Norðurlöndunum, sem hyggja á stúdentspróf, fái styrki eða lán til að stunda sitt nám. Þingmenn hafi við ákvörðun sína litið framhjá því og sömuleiðis því að brottfall nemenda á Íslandi sé áberandi meira en þar sem megi að nokkru rekja til skorts á skilningi stjórnvalda. Með ákvörðun sinni hafi stjórnvöld meðvitað ákveðið að mismuna nemendum eftir því hvaða námsleið þeir hafi valið sér. Sambandið segir hvorki hafi borist svör frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um hvers vegna ekki sé gert ráð fyrir bóknámsnemum í lögunum né hvort kostnaður við stuðning þeirra hafi verið reiknaður út. Samband íslenskra framhaldsskólanema bendir jafnframt á að á Íslandi vinni fjölmargir framhaldsskólanemendur sér til framfærslu meðfram skólanámi sínu. Því geti áframhald náms fjölmargra verið í uppnámi næsta vetur þar sem atvinnuframboð hafi dregist verulega saman og réttur nemenda til bóta sé enginn. Hætta geti verið á að margir þurfi að hverfa frá námi af þeim sökum.