Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir íslenska gesti byrja kvöldið fyrr eftir COVID

09.06.2020 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Íslenskir viðskiptavinir vín- og smáréttabarsins Tíu sopa eru farnir að heimsækja staðinn fyrr á kvöldin en þeir gerðu áður en COVID-19 faraldurinn skall á. Bragi Skaftason, einn eigenda staðarins, segir það jákvætt merki og vonar að Íslendingar haldi áfram að fá sér í glas fyrr á kvöldin eftir að takmarkanir á opnunartíma vínveitingastaða verða afnumdar.

Rekstur veitingastaða, skemmtistaða og kráa er nú að komast í samt horf en þeir þurfa þó að skella í lás fyrr en vanalega, eða í síðasta lagi klukkan ellefu á kvöldin. 

Bragi segir ánægjulegt að sjá hvernig Íslendingar hafa lagað neysluvenjur sínar að breyttum aðstæðum.

„Það er ákaflega gott að sjá að þrátt fyrir skertan opnunartíma þá er engu líkara en að Íslendingar hafi ákveðið að snúa aðeins klukkunni,“ segir Bragi. Hann hefur ekki orðið vitni að ofurölvun fyrir miðnætti eftir að staðurinn opnaði á ný og fólk er almennt rólegra en áður.

„Ég er mögulega að upplifa vísi að breyttu neyslumynstri og það er gríðarlega jákvætt ef þetta er eitthvað sem koma skal," segir Bragi.

Sátu ekki auðum höndum meðan á samkomubanni stóð

Veitingastöðum, ólíkt öldurhúsum og skemmtistöðum, var ekki gert að leggja niður starfsemi í samkomubanninu.

Margir veitingamenn ákváðu hins vegar að loka tímabundið enda töldu þeir ekki vera forsendur fyrir að halda dyrunum opnum
meðan fjöldatakmarkanir giltu. 

Sumir fóru þá leið að bjóða gestum upp á að sækja mat eða fá hann sendan heim. Tíu sopar buðu upp á slíka þjónustu meðan staðurinn var lokaður og gafst það nokkuð vel. 

Veitingastaðurinn Skál! á Hlemmi Mathöll ákvað að bjóða upp á matarpakka „tilbúna til eldunar“, sem matreiðslumenn staðarins útbjuggu fyrir viðskiptavini. 

„Fólk var að taka mjög vel í þetta, sérstaklega framan af,“ segir Gísli Matthías Auðunsson, yfirkokkur og einn eigenda Skál!. Skál! opnaði á ný þann 4. maí en þá heimiluðu stjórnvöld 50 manns að koma saman í einu rými.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Skál! er einn af veitingastöðum Hlemms mathallar.

Gísli segir að staðurinn komi nokkuð vel undan samkomubanninu þótt skortur á ferðamönnum taki óneitanlega sinn toll.

Aðrir nýttu tímann til þess að gera endurbætur og sinna viðhaldi. Veitingastaðurinn Forréttabarinn hefur verið lokaður síðan í byrjun samkomubanns en verið er að vinna að endurbótum á húsnæði staðarins.

Róbert Ólafsson, yfirkokkur og eigandi Forréttabarsins, segir að lengi hafi staðið til að ráðast í nauðsynlegar endurbætur og því hafi verið tekin ákvörðun um að nota tímann meðan á samkomubanni stóð. Hann er vongóður um að staðurinn opni á ný í byrjun júlí.

Hlutabótaleiðin gefist vel

Bragi, Gísli Matthías og Róbert nýttu sér allir hlutabótaleið stjórnvalda.

Bragi og Gísli nefna að hlutabótaleiðin hafi skipt gríðarlega miklu máli og verið stór liður í að komast yfir erfiðasta hjallann. Þeir ætla hins vegar ekki að nýta sér úrræðið áfram enda talsvert skrið komið á reksturinn á nýjan leik.

„Ég ætla að taka alla af hlutabótaleiðinni. Hún er orðin óþörf en hún hjálpaði okkur gríðarlega,“ segir Bragi en bætir við að góð samvinna við leigusala hafi einnig skipt sköpum.

Mörg fyrirtæki sem hafa misst viðskipti í samkomubanninu hafa nýtt sér hlutabótaleiðina. Fyrirtæki, sem gert var að leggja niður starfsemi vegna sóttvarnarreglna, svo sem krár, líkamsræktarstöðvar og rakarastofur, hafa einnig getað nýtt sér lokunarstyrk. 

Skál!, Tíu sopar og Forréttabarinn eiga ekki rétt á lokunarstyrk enda þurftu veitingastaðir ekki að leggja starfsemi sína niður samkvæmt reglunum.

Mynd með færslu
Bragi Skaftason, einn eigenda Tíu sopa.

Erlendir ferðamenn á bak og burt

Ekki er von á mörgum erlendum ferðamönnum til Íslands í sumar en undanfarin ár hafa þeir verið stór hluti þeirra sem heimsækja veitingahús og verslanir í miðbænum.

Gísli Matthías segir að áherslur Skál! taki mið af þessum breytingum. „Við erum að fara í gagngerar breytingar og aðlaga að breyttum rekstri,“ segir Gísli og bætir við að fækkun ferðamanna sé þar númer eitt, tvö og þrjú.

Áherslur Forréttabarsins munu hins vegar lítið breytast þrátt fyrir að ferðamenn séu á bak og burt. „Stærsti hluti kúnna okkar eru Íslendingar og fólk úr hverfinu,“ segir Róbert.

Bragi segir einnig að lítil breyting verði á áherslum Tíu sopa. Hann segir að markhópur staðarins sé fyrst og fremst Íslendingar þótt alltaf sé dálítill slæðingur af ferðamönnum.

Hann segir að þótt vissulega sé missir af erlendu ferðafólki, séu horfurnar góðar. Staðurinn opnaði síðasta sumar og viðskiptin ganga jafnvel enn betur en þegar staðurinn var glænýr. „Ef við horfum á byrjunina á þessu sumri þá lítur þetta vel út,“ segir Bragi.