Hamilton: Fjarlægið öll rasistaminnismerki

epa07716923 British Formula One driver Lewis Hamilton of Mercedes AMG GP celebrates winning the Formula One Grand Prix of Great Britain at the Silverstone circuit, in Northamptonshire, Britain, 14 July 2019.  EPA-EFE/GEOFF CADDICK
 Mynd: EPA

Hamilton: Fjarlægið öll rasistaminnismerki

09.06.2020 - 08:44
Lewis Hamilton, sexfaldur heimsmeistari í formúlu eitt, hvetur lönd heimsins til að taka niður og fjarlægja öll minnismerki um rasista eftir að íbúar Bristol veltu af stalli styttu af þrælasala í borginni.

Stytta af Edward Colston í miðborg Bristol var felld af stalli sínum á sunnudag og hent í höfnina. Colston var alræmdur þrælasali á 17. öld. 

Hamilton fagnaði framtaki Bristolbúa og sagði að ríkisstjórnir heimsins ættu að „stuðla að friðsamlegri fjarlægingu slíkra rasistaminnismerkja.“ Hamilton hefur tjáð sig mikið um málefni kynþáttahaturs eftir morðið á George Floyd og mótmælin sem í kjölfarið hafa fylgt.

„Ef þetta fólk hefði ekki tekið niður þessa styttu, sem var til heiðurs rasísks þrælasala, hefði hún aldrei verið fjarlægð. Það er talað um að setja styttuna á safn. Stytta þessa manns á að vera áfram í ánni líkt og þær 20.000 afrísku sálir sem létust á leiðinni hingað og var hent í hafið án greftrunar eða útfarar. Hann rændi þeim frá fjölskyldum sínum, landi sínu, og honum á ekki að vera hampað,“ sagði Hamilton.

Hamilton skaut svo á Donald Trump, Bandaríkjaforseta, á Twitter í gærkvöldi. Hann birti þá loftmynd af 16. stræti Washington D.C. sem liggur upp að Lafayette-garðinum fyrir framan Hvíta húsið, en á götuna hefur verið málað slagorðið Black Lives Matter. Hamilton bætti við: „... og ekki gleyma því.“