Umferð um hringveginn að aukast samhliða afléttingum

08.06.2020 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Mælingar Vegagerðarinnar gefa vísbendingar um umferðarþunga og ferðalög um landið. Samanburður á milli sjómannadagshelga í ár og í fyrra leiðir í ljós að umferð austur fyrir fjall um Hellisheiði var minni í ár, en sunnudagsumferðin til borgarinnar meiri en á Sjómannadaginn árið 2019.

Heldur minni umferð var um Hvalfjarðargöng um helgina miðað við árið í fyrra. Á föstudag óku 10.244 bílar um göngin en 11.970 á föstudegi fyrir Sjómannadag í fyrra. Sunnudagsumferð um göngin var mjög svipuð á milli ára.

Heildarumferð um þjóðvegi landsins hefur dregist hlutfallslega saman seinustu 3 mánuði miðað við árið 2019. Í mars dróst umferð saman um fjórðung á milli ára, um tæp 35 prósent í apríl og um 10 prósent í maí.

Mun minni umferð á Norður- og Austurlandi

Sé litið á einstaka landshluta dróst umferð í apríl hlutfallslega mest saman á Norðurlandi eða um tæp 59 prósent og um 53 prósent á Austurlandi. Á Suður- og Vesturlandi dróst umferð saman um tæpan helming í apríl. Umferð á höfuðborgarsvæðinu dróst saman um 22 og hálft prósent á sama tíma.  

Umferð að færast í fyrra horf á höfuðborgarsvæðinu

Svo virðist sem umferðin sé aftur að aukast um vegi landsins eftir að ferðatakmörkunum hefur verið aflétt. Til að mynda var umferð á höfuðborgarsvæðinu aðeins þrem prósentum minni í maí miðað við árið 2019. Umferð um Austurland var rétt tæpum 40 prósentum minni í maí miðað við í fyrra og á Norðurlandi var hún rúmum fjórðungi minni. Þar virðist því umferð aukast hægar en í öðrum landsfjórðungum. 

Hægt er að skoða gögn um umferð seinustu daga á mælingarpóstum Vegagerðarinnar hér og bera saman við eldri gögn hér.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi