Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tvær vikur í verkfall hjúkrunarfræðinga

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Samningafundur í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga og ríkisins verður í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Tvær vikur eru þangað til ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga hefst.

Hjúkrunarfræðingar hafa verið án samnings í 15 mánuði. Þeir felldu kjarasamning í atkvæðagreiðslu í lok apríl og samþykktu fyrir helgi verkfallsboðun með miklum meirihluta. Að óbreyttu hefjast verkfallsaðgerðir að morgni mánudagsins 22. júní.

Mikið ber í milli og er það launaliðurinn sem stendur út af. Hjúkrunarfræðingar gera skýra kröfu um hækkun grunnlauna en formaður samninganefndar ríkisins sagði við fréttastofu fyrir helgi að ríkið hefði teygt sig eins langt og kostur væri til að koma til móts við kröfur hjúkrunarfræðinga.

Verkfallið hefði víðtæk áhrif, en það tekur til tvö þúsund og sex hundruð hjúkrunarfræðinga um allt land. Forstjóri Landspítalans hefur sagt að komi til verkfalls muni margar aðgerðir bíða og þjónusta fara víða úr skorðum. Einungis bráða- og neyðarþjónustu verður sinnt.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segist hóflega bjartsýn á viðræður dagsins. „Ég heyrði bæði í ríkissáttasemjara og formanni samninganefndar ríkisins á föstudaginn eftir að niðurstaða kosninganna lá fyrir hjá hjúkrunarfræðingum. Þar er fullur vilji til að koma saman og reyna að halda áfram samtalinu og það er að sjálfsögðu hjá okkur líka.“

Verkfall hefði einnig víðtæk áhrif á fyrirhugaða opnun landamæra. Framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðiðsins sagði í kvöldfréttum sjónvarps í gær að ekki yrði hægt að framkvæma skimanir á landamærunum komi til verkfalls enda verkefnið að stórum hluta borið uppi af hjúkrunarfræðingum. Spurð að því hvort það setji aukna pressu á samningaviðræðurnar svarar Guðbjörg: „Bara eins og alltaf þegar um er að ræða verkfall. Það er náttúrlega mjög alvarlegt hvað þetta hefur mikil áhrif á heilbrigðiskerfið. En það er alveg á hreinu að þetta er algjört neyðarúrræði.“