Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verkfall hjúkrunarfræðinga setur skimun í uppnám

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Ekki verður hægt að skima ferðamenn sem hingað koma og halda landamærunum opnum ef hjúkrunarfræðingar fara í verkfall eftir tvær vikur eins og stefnir í. „Við erum með það mikið af hjúkrunarfræðingum í þessu verkefni, sem stýra því og halda utan um það. Ég sé ekki að við náum að halda þessu opnu ef verkfallið verður,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Hjúkrunarfræðingar fara að óbreyttu í ótímabundið verkfall 22. júní - viku eftir að opna á landamærin. „Það er okkur mikið áhyggjuefni af því að við erum að horfa á þessar fyrstu tvær vikur sem tilraunaverkefni til að sjá hvernig þetta gengur og sníða af alla vankanta. Þannig ef við fáum verkfall í mitt það tímabil sé ég ekki alveg hvernig það á að ganga upp,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Óvíst hvort undanþágur fáist

Ragnheiður er í undirbúningshóp um opnun landamæranna. Hún segir að það verði erfitt að manna verkefnið með öðrum en hjúkrunarfræðingum. 

Væri hægt að biðja um undanþágur fyrir þetta verkefni? „Við munum að sjálfsögðu gera það en það er ekkert í höfn að við fáum þær undanþágur.“

Ragnheiður hvetur samningsaðila til að semja sem fyrst. Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar eftir hádegi á morgun en það er allt í hnút í deilunni. Enn er deilt um launin. Hjúkrunarfræðingar felldu samning fyrir um mánuði og formaður samninganefndar ríkisins sagði í fréttum okkar á föstudag að ríkið hefði teygt sig eins langt og hægt væri til móts við kröfur hjúkrunarfræðinga.

Verkfallið hefði líka víðtæk áhrif á heilsugæslur út um allt land. „Það er varla hægt að halda uppi hefðbundinni starfsemi, alls ekki. Við erum með lítið að undanþágum eins og á heilsugæslustöðvunum. Við erum með einn yfirmann á hverri stöð sem fær undanþágu. Þannig öll eðlileg starfsemi myndi leggjast af.“

Byggja tíu sýnatökubása á Keflavíkurflugvelli

Stefnt er að því að opna landamærin eftir viku. Farþegum ber skylda til að fylla út forskráningarform á covid.is áður en þeir koma með helstu persónuupplýsingum og dvalarstað. „Það eiga allir að forskrá sig. Það er mikill undirbúningur í því að forrita það allt saman. Síðan er verið að útbúa sýnatökubása út á Keflavík sem er áætlað að verði 10 stykki til að byrja með allavega. Það er að hanna það og koma því fyrir og smíða, byggja og laga, það er mjög margt sem þarf að ganga upp,“ segir hún.

Næst þetta fyrir 15. júní? „Við getum ekki annað en að vera bjartsýn. Við reynum hvað við getum.“