Hvítu blóðkornin flogin til Kanada

Mynd: RÚV - Freyr Arnarson / RÚV
Hvít blóðkorn úr þremur Íslendingum voru flutt utan í gærkvöld. Þau verða notuð til þess að búa til mótefni fyrir kórónuveirunni. 

Fékk væg einkenni og náði sér fljótt

Þótt ekki farið mikið fyrir blóðkornunum þá þurfti einkaþotu undir þau enda er hver mínúta dýrmæt því þau verða að komast sem fyrst í kjöraðstæður á rannsóknarstofu á vesturströnd Kanada. Þotan gerði stuttan stans á Reykjavíkurflugvelli í gærkvöld.

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar fékk hugmyndina að því að nota hvít blóðkorn úr fólki sem varð lítið veikt af COVID-19 en mældist samt með mjög mikið mótefni. Eitt þessara hálfgerðu ofurmenna í þessu tilliti varð til dæmis bara með væg einkenni í fáa daga og náði sér fljótt.

Í rannsókninni verður reynt að eingangra úr þessum hvítu blóðkornum þau blóðkorn sem afvopna veiruna, sagði Kári í sjónvarpsfréttum í gærkvöld. Þessi ofurgen yrðu svo notuð til að framleiða fleiri sem síðan væri hægt að gefa COVID-sjúklingum.

Hugsanlega ein ferð til viðbótar

Rannsóknarstofan í Kanada er þegar byrjuð að rannsaka blóð úr þremur öðrum Íslendingum og gengur mjög vel og segist Kári ekki myndu verða hissa á því að fyrir lok þessa árs yrðu komin einhver mótefni sem virka. 

Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítalanum segir að upphaflega hafi verið ráðgert að flytja hvít blóðkorn úr níu til tíu Íslendingum utan en ekki hafi verið ákveðið hvort farin verði ein ferð til viðbótar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Flugvallarstarfsmaður fylgir áhöfn einkaþotunnar frá borði.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi