Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Var Brückner valdur að hvarfi þriggja barna?

06.06.2020 - 11:24
Samsett mynd af Christian Brückner og Ingu, 5 ára stúlku sem hvarf í Þýskalandi 2015
 Mynd: EPA-EFE - SAXONY ANHALT POLICE
Christian Brückner, sem er grunaður um að vera valdur að hvarfi bresku stúlkunnar Madeleine McCann, er nú til rannsóknar í tengslum við hvarf tveggja annarra barna. Fimm ára stúlku í Þýskalandi og sex ára drengs í Portúgal. 

Spiegel greindi í gær frá máli Ingu, þýskrar stúlku sem hvarf í Saxlandi árið 2015. McCann hvarf þegar hún var í fríi með fjölskyldu sinni í Portúgal árið 2007. Í gærkvöld var svo greint frá því að yfirvöld séu einnig að skoða hvort Brückner kunni að vera sekur í máli þýsks drengs sem hvarf í Portúgal árið 1996, að því er Guardian greinir frá. 

Brückner, á að baki langan sakaferil og hefur meðal annars verið dæmdur fyrir barnaníð.  

Að sögn Spiegel átti hann árið 2013 í samræðum á Skype við annan mann um að hann langaði til að ræna og nauðga ungri stúlku og að sú stúlka myndi aldrei finnast. 

Áður hefur komið fram að Brückner hafi verið búsettur í Praia da Luz, bænum sem Madeleine hvarf frá þegar hún var þar í sumarleyfi með foreldrum sínum. Hann er meðal annars grunaður um að hafa nauðgað 72 ára bandarískri konu í Praia da Luz tveimur árum fyrr.  

Brückner er nú í fangelsi í borginni Kiel vegna dóms sem hann hlaut fyrir fíkniefnabrot.