Búist við fjölmennustu mótmælunum hingað til

06.06.2020 - 14:38
epaselect epa08467799 'Black Lives Matter' is painted on the pavement of 16th Street near the White House, the location of seven days of protests in DC over the death of George Floyd, who died in police custody, in Washington, DC, USA, 05 June 2020. DC Mayor Muriel Bowser later renamed that section of 16th Street, 'Black Lives Matter Plaza.'  EPA-EFE/CARLOS VILAS DELGADO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögreglustjórinn Washington í Bandaríkjunum segir að mótmælin sem eru fyrirhuguð í dag gætu orðið með þeim fjölmennustu í sögu borgarinnar. Donald Trump Bandaríkjaforseti er verulega ósáttur við borgarstjóra Washington sem lét mála slagorð mótmælenda á götuna sem liggur að Hvítahúsinu.

Trump skrifaði á Twitter í gær að Muriel Bowser borgarstjóri væri engan vegin starfi sínu vaxin. Þetta skrifar forsetinn eftir að Bowser, sem er Demókrati og því andstæðingur Turmps í pólitík, lét breyta nafni götunnar sem liggur í átt að Hvíta húsinu í Black Lives Matter Plaza í gær. Jafnframt var slagorðið, sem mætti útleggjast sem líf þeldökkra skipta máli, málað stórum gulum stöfum á götuna.

„Góður dagur fyrir alla“

Enn er mótmælt víða í Bandaríkjunum eftir að George Floyd var drepinn af lögreglumanni í borginni Minneapolis í byrjun síðustu viku. Trump hefur verið gagnrýndur fyrir að minnast á Floyd á blaðamannafundi í gær þar sem hann fagnaði því að atvinnuleysistölur þokist nú í rétta átt. Þar vék hann talinu að mótmælunum og sagði mikilvægt að allir væru jafnir fyrir lögum. „Vonandi horfir George (Floyd) niður til okkar og segir með sér að það sem er að gerast sé frábært. Þetta er góður dagur fyrir hann. Þetta er góður dagur fyrir alla,“ sagði Trump. Þarna þykir forsetinn gefa í skyn að Floyd myndi fagna góðum árangri í atvinnumálum. 

epa06758083 (FILE) - San Francisco 49ers back-up quarterback Colin Kaepernick (C), San Francisco 49ers outside linebacker Eli Harold (L), and San Francisco 49ers free safety Eric Reid (R) take a knee during the US national anthem before the NFL game
 Mynd: EPA
Colin Kaepernick mótmælti lögregluofbeldi með því að krjúpa á kné.

Atburðir síðustu daga virðast hafa leitt af sér viðhorfsbreytingu innan NFL deildarinnar í amerískum fótbolta. Nú fjórum árum eftir að Colin Kaepernick mótmælti lögregluofbeldi gegn þeldökkum með því að krjúpa á kné á meðan þjóðsöngurinn var fluttur viðurkennir Roger Goodell, framkvæmdastjóri NFL, að það hafi verið rangt að standa ekki með honum. Hann segir að deildin hefði átt að hlusta og hvetur alla til þess að tjá sig opinberlega og mótmæla friðsamlega. Kaepernick mætti mikilli andstöðu á sínum tíma. Einna reiðastur var Trump forseti sem hvatti forráðamenn deildarinnar til þess að reka þá leikmenn sem sýndu fánanum og hernum ekki tilhlýðilega virðingu fyrir leiki.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi