Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hrædd við að synirnir lendi í harðræði lögreglu

05.06.2020 - 10:56
Mynd: RÚV / RÚV
Kynþáttamismunun er til staðar á Íslandi eins og annars staðar, en hún er oft með óbeinum hætti. Claudie Ashonie Wilson, héraðsdómslögmaður og eigandi á lögmannsstofunni Rétti, ræddi um kynþáttamismunun og fordóma á Morgunvaktinni.

„Svo er náttúrulega staðan sú að þó að þetta sé ekki eitthvað sem við viljum vera að ræða, sem foreldri af erlendum uppruna eða bara svört kona á Íslandi, finn ég mig knúna til þess að tala við börnin mín um lögregluofbeldi og hvernig þau ættu að haga sér í kringum lögreglu,“ segir Claudie.

Meðal þess sem Claudie ræðir við syni sína er það hvers vegna hún leyfir þeim ekki að vera úti til miðnættis, eins og vinir þeirra fá að gera.

„Ég var að viðurkenna fyrir þeim fyrir tveimur dögum ástæðuna fyrir því. Af því að ég er hrædd við það að ef að einhver vinur þeirra og þeir eru á röngum stað á röngum tíma, geti þeir orðið fyrir harðræði.“

Claudie hefur rætt þetta við samstarfsfólk sitt sem hefur aldrei dottið í hug að ræða svona lagað við börnin sín. Það er hluti af hinum hvítu forréttindum að þurfa ekki að hugsa um svona lagað, segir Claudie.

Hún segir að sumum gæti þótt þetta of mikið, en hún hafi ígrundað vel ástæður þess að vera varkár. Sjálf hefur hún lent í kynþáttafordómum en segir það hafa minnkað með tímanum, eftir því sem hún eldist og hefur verið á Íslandi lengur.

thorunneb's picture
Þórunn Elísabet Bogadóttir
dagskrárgerðarmaður