Tilfellum COVID-19 fjölgar hratt í Brasilíu

epa08461460 Indigenous man Antonio Vaz, 79, of the Dessana ethnicity and patient of COVID-19, receives treatment at the Campanha Gilberto Novaes Municipal Hospital, in Manaus, Brazil, 02 June 2020. The Brazilian state of Amazonas, one of the hardest hit by the pandemic in Brazil, has a medical care unit for indigenous people infected by COVID-19.  EPA-EFE/RAPHAEL ALVES
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfir eitt þúsund létu lífið af völdum COVID-19 síðasta sólarhring bæði í Mexíkó og Brasilíu. Yfir 1.300 létust í Brasilíu, þar sem nærri 33 þúsund eru nú látnir af völdum sjúkdómsins. Fjöldi greindra smita nálgast óðum 600 þúsund, en eru að öllum líkindum mun fleiri þar sem fremur fá sýni hafa verið tekin í landinu, eða innan við milljón. 

Nærri 1.100 létu lífið í Mexíkó síðasta sólarhring, þar sem yfir 100 þúsund hafa nú greinst smitaðir. Svipað er uppi á teningnum þar og í Brasilíu, þar sem sýnataka hefur verið af skornum skammti. Nærri 12 þúsund eru látnir af völdum veirunnar í Mexíkó. 

Fleiri tilfelli greindust í Brasilíu síðasta sólarhring heldur en í Bandaríkjunum. yfir 20 þúsund greindust í Bandaríkjunum, en þau voru rúmlega 27 þúsund í Brasilíu. Nærri 1.100 létu lífið af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum undanfarinn sólarhring, og eru nú rúmlega 109 þúsund í valnum vegna faraldursins. 1,9 milljónir rúmar hafa greinst smitaðar. 

Alls hafa fleiri en sex og hálf milljón manna greinst með veiruna á heimsvísu og nærri 390 þúsund látið lífið. Yfir þrjár milljónir hafa náð sér af veikindunum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi