Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Telja að Madeleine McCann sé látin

04.06.2020 - 11:42
epa05936969 (FILE) -  An undated file handout videograb photograph made available by Real Madrid TV showing missing British girl Madeleine McCann, who was allegedy abducted 03 May 2007 from the resort apartment where she was on vacation with her family in
Madeleine McCann. Mynd: EPA - Real Madrid TV
Yfirvöld í Þýskalandi telja að breska stúlkan Madeleine McCann, sem hvarf í Portúgal árið 2007, sé látin og segjast rannsaka málið sem morð. Grunur beinist að þýskum manni, dæmdum kynferðisbrotamanni og barnaníðingi, sem er í fangelsi í heimalandi sínu.   

Madeleine McCann var þriggja ára þegar hún hvarf úr hótelíbúð í Praia de Luz í Portúgal að kvöldi þriðja maí  2007. Foreldrar hennar höfðu skilið hana og systkini hennar eftir í íbúðinni á meðan þau snæddu með vinum á veitingahúsi skammt frá.

Mikil leit var gerð en fáar trúverðugar vísbendingar komu fram um örlög stúlkunnar, en að sögn fjölmiðla fóru fyrir þremur árum böndin að beinast að þýskum manni, sem oft hefði dvalið í Portúgal á árunum 1995-2007. Hefði hann verið á sama ferðamannastað og McCann-fjölskyldan þegar Madeleine hvarf.

Saksóknari í Braunschweig í Þýskalandi staðfesti í morgun að maðurinn sætti rannsókn vegna gruns um morð, sem þýddi að yfirvöld teldu að Madeleine McCann væri látin.

 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV