Egill tilnefndur til Reumert - verðlaunanna

Mynd með færslu
 Mynd: Egill Pálsson

Egill tilnefndur til Reumert - verðlaunanna

04.06.2020 - 19:26

Höfundar

Egill Heiðar Anton Pálsson hefur verið tilnefndur til Reumert-verðlaunanna, sviðslistarverðlauna Dana, í flokknum leikstjóri ársins 2020. Hann er tilnefndur fyrir leikstjórn á Fanny og Alexander í Borg­ar­leik­hús­inu í Ála­borg.

Rætt var við Egil á RÚV fyrir frumsýningu leikritsins í september í fyrra. Þar sagðist hann aldrei hafa séð verkið á sviði áður en að hann ætti sterkar minningar um það þegar hann og móðir hans horfðu á samnefnda þætti á RÚV þegar hann var ellefu ára. 

Verkið er eftir sænska leikstjórann Ingmar Bergman sem byggði það að hluta á sínum æskuminningum.  

Leikgerð Egils fjallar um ungan mann, Alexander, sem ákveði að setja á svið sjálfsævisögulegt verk. „Hann er að reyna að komast að því sjálfur hvað það var sem gerðist og af hverju. Fjölskylda hans er leikhúsfjölskylda svo það liggur beinast við að þau bjóði okkur áhorfendum í leikhúsið þar sem þau leika svo sig sjálf.“ 

Verðlaunin eru kennd við danska leikarann Paul Reumert og verða afhent í danska þjóðleikhúsinu 21. september. Á vefsíðu hátíðarinnar kemur fram að fjöldi í salnum verði í samræmi við gildandi reglur vegna heimsfaraldursins.