Yfir 30 þúsund látnir vegna COVID-19 í Brasilíu

03.06.2020 - 01:11
epa08454700 Health personnel perform tests in the Bela Vista do Jaraqui community, struck by the COVID-19 pandemic, in the rural area of Manaus, Amazonas, Brazil, 30 May 2020. In the Brazilian state of Amazonas, one of the hardest hit by the pandemic, medical care for riverine communities comes through the waters of the Negro River. Medical teams navigate the Amazonian rivers and cross thick vegetation to visit rural communities in the interior, carry out tests and guide them on prevention measures in the fight against COVID-19.  EPA-EFE/RAPHAEL ALVES
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfir 30 þúsund eru nú látnir af völdum COVID-19 samkvæmt opinberum tölum í Brasilíu og yfir 550 þúsund hafa greinst smitaðir. Brasilía er þá eitt fjögurra ríkja þar sem yfir 30 þúsund eru látnir af völdum veikinnar, hin eru Ítalía, Bretland og Bandaríkin. 108 þúsund eru nú látnir í Bandaríkjunum og nærri 1,9 milljónir hafa greinst smitaðir.

Frumbyggjar Brasilíu vilja aukna vernd

Þungamiðja faraldursins er nú í Suður-Ameríku. Brasilía hefur orðið langverst úti í álfunni. Íbúar úr röðum frumbyggja Brasilíu óttast verulega áhrif sjúkdómsins á samfélög þeirra. AFP fréttastofan hefur eftir leiðtoga Yanomami þjóðarinnar að þess sé krafist að brasilíska stjórnin flytji ólöglega gullnámuverkamenn á brott frá lendum þeirra. Verði ekkert gert til þess að vernda þjóðina frá smiti geti þúsundir legið í valnum. Alls hafa yfir 1.700 greinst í 76 þorpum frumbyggja í Brasilíu, og 167 látið lífið samkvæmt upplýsingum frá samtökum frumbyggjaþjóða í Brasilíu.

Veiran hefur einnig tekið sinn toll í Perú, þar sem yfir 4.600 eru látnir af völdum hennar og yfir 170 þúsund hafa greinst smitaðir. Þar hafa minnst 20 fjölmiðlamenn látið lífið í faraldrinum. Flestir þeirra smituðust við að greina frá faraldrinum, oft án nokkurs hlífðarbúnaðar. 

Minnihlutahópar í meiri hættu í Bretlandi

Samkvæmt opinberum tölum frá Bretlandi eru nærri 40 þúsund látnir af völdum COVID-19. Nýjustu tölur bresku hagstofunnar, þar sem greint er frá fjölda tilfella þar sem minnst er á COVID-19 á dánarvottorðum, sýna að yfir 48 þúsund voru látin af völdum kórónuveirunnar 22. maí síðastliðinn í Englandi og Wales. Alls eru dauðsföll í Englandi og Wales frá því faraldurinn hófst rúmlega 56 þúsund fleiri en meðaltal síðustu fimm ára yfir sama tímabil.

Samkvæmt nýrri skýrslu lýðheilsustofnunar Bretlands bitnar faraldurinn verst á minnihlutahópum. Þannig eru íbúar af bangladesku bergi brotnir í tvöfalt meiri hættu á að deyja af völdum COVID-19 en hvítir Bretar. Matt Hancock, heilbrigðisráðherra, segir faraldurinn sýna það ójafnræði sem ríki í heilbrigðisþjónustu í landinu. Hann lofaði bót og betrun.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi