Spennustigið hátt í Washington

02.06.2020 - 03:15
epaselect epa08459195 US President Donald J. Trump returns after posing with a bible outside St. John's Episcopal Church after delivering remarks in the Rose Garden at the White House in Washington, DC, USA, 01 June 2020. Trump addressed the nationwide protests following the death of George Floyd in police custody.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nú er tekið að kvölda í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, og útgöngubann er skollið á.

Fyrir nokkrum klukkustundum hélt Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarp sitt í Rósagarðinum við Hvíta húsið þar sem hann kvaðst óhikað myndu senda þúsundir hermanna út af örkinni til að stöðva óeirðirnar í landinu, ef á þyrfti að halda.

Á meðan ávarpinu stóð mátti heyra hvelli og sprengingar sem bárust frá Lafayette garðinum steinsnar frá Hvíta húsinu. Þar beitti lögreglulið táragasi og gúmmíkúlum til að leysa upp hóp mótmælenda.

Að loknu ávarpi sínu gekk Trump gegnum garðinn og að Jóhannesarkirkju við Lafayette torg þar sem hann var ljósmyndaður með Biblíu í hönd og sagði Bandaríkin vera stórkostlegasta land í heimi.

Fullyrt hefur verið að aðgerðirnar gegn mótmælendunum hafi verið til að auðvelda myndatökuna af forsetanum.

Muriel Brown, borgarstjóri í Washington, fordæmir aðfarir lögreglunnar enda hafi verið óþarfi að ganga eins hart fram og raun ber vitni. Hún hvetur jafnframt íbúa borgarinnar til að hverfa í öryggi heimila sinna. 

Spennustigið í Washington er hátt í kvöldhúminu þar sem fjöldi mótmælenda og löggæslufólks er á götunum. Flestir virðast fara fram með friði en dæmi eru þó um grjótkast og að gluggar hafi verið brotnir í verslunum.

Að minnsta kosti ein herþyrla sveimar yfir mótmælendum og flýgur lágt til að dreifa mannfjöldanum. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi