Rúmlega tvö þúsund hafa boðað komu sína á samstöðufund

02.06.2020 - 21:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rúmlega tvö þúsund manns hafa boðað komu sína á samstöðufund á Austurvelli á morgun, vegna ástandsins í Bandaríkjunum. Mótmæli og óeirðir vegna dauða George Floyd hafa staðið sjö daga í röð og virðast ekki í rénun.

Fundurinn hefst með upplestri á nöfnum svartra Bandaríkjamanna sem hafa látist eftir samskipti við lögreglu. Í kjölfarið verður átta mínútna og 46 sekúnda þögn til að minnast Floyd en það er tíminn sem lögreglumaðurinn Derek Chauvin kraup á hálsi George Floyd, með þeim afleiðingum að Floyd lést.

Nokkrir Bandaríkjamenn sem búa á Íslandi hafa skipulagt fundinn. Þeir hvetja fólk til að gæta að sóttvörnum og fjarlægðartakmörkunum. Enn mega einungis 200 koma saman og verður samstöðufundurinn því að öllum líkindum fjölmennari en fjöldatakmarkanir kveða á um.

Fjölmargir Íslendingar birtu í dag svarta mynd á samfélagsmiðlinum Instagram til að vekja fólk til umhugsunar um ofbeldi sem lögregla beitir svarta Bandaríkjamenn. Myrkvuninni var upprunalega ætlað að vekja athygli á framlagi svarts fólks til tónlistar en tónlistarkonurnar Jamila Thomas og Brianna Agyemang skipulögðu átakið. Átakið dreifðist mun víðar en einungis innan tónlistarbransans og nú hafa um 25 milljónir svartra mynda verið birtar á Instagram með myllumerkinu #BlackOutTuesday.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi