Ríkisstjórar hafna beitingu hervalds

02.06.2020 - 01:51
New York Gov. Andrew Cuomo delivers his third State of the State address at the Empire State Plaza Convention Center on Wednesday, Jan. 9, 2013, in Albany, N.Y. (AP Photo/Mike Groll)
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP Photo/Mike Groll
Andrew Cuomo ríkisstjóri New York vill ekki að herliði verði beitt gegn mótmælendum í borginni. Embættisbróðir hans í Illinois J. B. Pritzker tekur í sama streng.

Pritzker segir forsetann vera að beina athyglinni frá mistökum sínum í viðbrögðum við kórónuveirufaraldrinum.

Hann sjái hér tækifæri í hræðilegum örlögum Georges Floyd og viðbrögðunum við þeim til að beina sjónum almennings að honum sjálfum sem „forseta laga og réttar”.

Ríkisstjórinn segir forsetann hafa brugðist ranglega og allt of harkalega við gagnvart mótmælendum fyrir utan Hvíta húsið.

Þar hafi friðsamleg mótmæli verið leyst upp með valdbeitingu. Pritzker segir að svona hagi menn sér ekki í Bandaríkjunum.

Löggæslan eigi að vera til verndar fólki og að í Chicago fái friðsamir að iðka sín mótmæli.

Andrew Cuomo ríkisstjóri New York segir „nei takk” við yfirlýsingum Trumps forseta um að virkja herlið í ríkinu og kveður forsetann vera að endurskapa raunveruleikann til að upphefja sjálfan sig.

Mótmælendur í höfuðborginni hafi mestmegnis verið ungt fólk sem hefði réttilega misboðið það sem gerðist í Minneapolis fyrir viku og það áreitti engan.

Cuomo viðurkennir að hættulegir einstaklingar sem hafa glæpsamlegt athæfi í hyggju séu meðal mótmælenda. Ríkisstjórinn segir þó um minnihluta að ræða en að slíkt háttalag væri óþolandi .

Lögin í landinu séu hugsuð til þess að stöðva það fólk sem hygðist nota ástandið í glæpsamlegum tilgangi. Á hinn bóginn hefði forsetinn snúið bandarískum her gegn saklausum borgurum með ákvörðun sinni.

Gretchen Whitmer ríkisstjóri í Michigan var ekki jafn afgerandi í svörum en sagði þó ekki hægt að senda herlið þangað án hennar samþykkis. 

Viðbrögð Erics Garcetti, borgarstjóra í Los Angeles eru að hvetja alla borgarbúa að halda sig heima við eftir að útgöngubann skellur á klukkan 18 að staðartíma. Þannig tryggi þeir öryggi sitt best.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi