Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Engin krafa um fjárnám barst Tryggingastofnun

02.06.2020 - 17:24
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson
Engin krafa um fjárnám á hendur Tryggingastofnun ríkisins barst frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, að því er kemur fram í tilkynningu Tryggingastofnunar. Dómssátt í máli tveggja öryrkja gegn stofnuninni var greidd út 11 dögum eftir að greiðslufrestur rann út.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er sagt frá því að sýslumaður hafi í síðustu viku boðað Sigríði Lily Baldursdóttur, forstjóra Tryggingastofnunar, til fyrirtöku um fjárnám hjá stofnuninni. Sagt var frá umfjöllun Fréttablaðsins á vef RÚV.

Í tilkynningu frá Tryggingastofnun sem barst síðdegis í dag eru gerðar athugasemdir við „alvarlegar rangfærslur“ í umfjöllun Fréttablaðsins. Það sé ekki rétt að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi sent Tryggingastofnun kröfu um fjárnám vegna þess að tveir öryrkjar hafi ekki fengið greidda dómssátt innan hefðbundins greiðslufrests.

„Engin slík krafa barst, eða mun berast til TR enda var málið afturkallað,“ segir í tilkynningunni og að dómssátt hafi verið greidd út miðvikudaginn 27. maí síðastliðinn, en ekki á föstudag eins og sagt er frá í blaðinu.

Í tilkynningunni segir að ellefu virkir dagar hafi liðið umfram hinn hefðbundna 15 daga greiðslufrest á greiðslu dómssáttar, áður en dómssáttin var greidd út. Tryggingastofnun segist harma þá töf.

Málið varðar túlkun á lögum um búsetuskerðingar í lögum um almannatryggingar árið 2009. Tveir einstaklingar höfðuðu mál gegn Tryggingastofnun til að fá skorið úr um hversu háar bætur þeir ættu að fá. Dómssátt var gerð í málinu í lok apríl.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV