Umferðin streymir um göngugötur

01.06.2020 - 19:22
Mynd: RÚV/Freyr Arnarson / RÚV/Freyr Arnarson
Töluverður misbrestur er á því að ökumenn virði skilti um göngugötur í miðborg Reykjavíkur og hefur lítið dregið úr umferð. Borgarfulltrúi segist hafa trú á að þetta séu byrjunarörðugleikar og að fólk þurfi tíma til að venjast þessum breytingum.

Hluti Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs er orðinn að varanlegum göngugötum og í síðustu viku settu starfsmenn Reykjavíkurborgar upp skilti til að minna á það.

Engu að síður streymir umferð þar um og Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi og fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og samgönguráði, segir að það gæti þurft að bæta merkingar. „Það gæti verið ein aðgerðin sem þarf að grípa til en síðan þarf fólk kannski bara að fá að venjast því að þetta megi ekki.“

Áður var götunum lokað með hliði en nýtt ákvæði í umferðarlögum gerir þá útfærslu erfiðari. Kristín Soffía segir æskilegast að göturnar verði þess vegna opnar en að fólk virði reglurnar. „Við kunnum alveg að keyra eftir skiltum. Okkur finnst ekkert erfitt að aka ekki inn einstefnur þótt það séu ekki pollar sem stöðva okkur þannig að ég held að það væri alltaf langfallegasta lausnin og öruggust í borgarrýminu ef fólk gæti bara virt það að aka ekki þar sem það er bannað.“

Miðað við viðbrögð vegfarenda sem fréttastofa ræddi við gæti þurft að skerpa eitthvað á merkingunum. Gangandi vegfarendur gerðu einnig sitt besta til að minna ökumenn á að þeir væru að keyra í gegnum göngugötu. Árangurinn var þó ekki alltaf í samræmi við viðleitnina, eins og sést í meðfylgjandi frétt.

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi