Ekkert COVID-19 andlát á Spáni - 111 á Bretlandi

01.06.2020 - 16:48
epa08458480 People enjoy a warm day at the beach in Melilla, Spain, 01 June 2020, on the day the autonomous region starts phase 2 of the government's plan to gradually ease the lockdown measures implemented in a bid to slow down the spread of the pandemic COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus. Melilla reopens beaches as it is now allowed to swim in the sea.  EPA-EFE/F. G. Guerrero
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Átta dauðsföll af völdum COVID-19 voru skráð í Svíþjóð síðasta sólarhringinn. Þetta kemur fram í nýjustu tölum frá heilbrigðisyfirvöldum. Í Bretlandi voru skráð 111 dauðsföll og hafa þau ekki verið færri í tvo mánuði. Ekkert andlát af völdum COVID-19 var á Spáni síðasta sólarhringinn en þar hafa rúmlega 27 þúsund látist í farsóttinni.

Rúmlega 4.400 hafa látist í kórónuveirufaraldrinum í Svíþjóð. 

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, sagðist á fréttamannafundi í dag búast við að tala látinna ætti eftir að hækka aftur á morgun þar sem skráning tefðist oft um helgar. Alls 272 ný COVID-19 smit voru staðfest síðasta sólarhringinn og hafa því 38 þúsund greinst með kórónuveiruna í Svíþjóð.

Á vef SVT kemur fram að ríkisstjórnin ætli að skipa nefnd til að fara yfir árangur landsins í baráttunni við COVID-19.  Upphaflega var talið að nefndin myndi ekki taka til starfa fyrr en faraldurinn væri yfirstaðinn en haft er eftir Stefan Löfven að skipað verði í nefndina í sumar.

Í Danmörku létust tveir úr COVID-19 síðasta sólarhringinn og hafa 576 látist í farsóttinni þar. 103 eru á sjúkrahúsi, þar af 20 á gjörgæsludeild. Þrjátíu ný smit voru staðfest síðasta sólarhringinn og hafa 11.699 greinst með kórónuveiruna þar. 

Í Bretlandi voru skráð 111 dauðsföll og hafa þau ekki verið færri í tvo mánuði.  Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, sagði þetta sýna að Bretland væri að vinna baráttuna við veiruna. Ekki mætti þó slaka á klónni því sigurinn væri ekki unnin.  

Hefðbundið skólastarf hófst að nýju í flestum skólum í Bretlandi í morgun. Þar fá yngstu börnin fyrst að mæta í skólann en margir foreldrar ætla að halda börnum sínum heima því mörg smit greinast enn í Bretlandi. 

Ekkert andlát af völdum COVID- 19 var á Spáni síðasta sólarhringinn en þar hafa rúmlega 27 þúsund látist í farsóttinni.   Liðin í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hófu æfingar af fullum krafti í dag, 82 dögum eftir að keppni var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.  

Liðin hafa eingöngu tíu daga til að undirbúa sig áður en deildin byrjar aftur. Barselóna er á toppi spænsku deildarinnar, er með tveimur stigum meira en hinir fornu fjandmenn þess í Real Madrid.  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi