Aukið umferðareftirlit síðdegis

01.06.2020 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: Alma Ómarsdóttir
Umferðin þessa hvítasunnuhelgi hefur gengið stóráfallalaust fyrir sig. Margir eru á faraldsfæti og er búist við þungri umferð til höfuðborgarsvæðisins þegar líður á daginn.

Hvítasunnuhelgin er fyrsta stóra ferðahelgi sumarsins. Þung umferð var á föstudaginn út frá höfuðborgarsvæðinu á aðalumferðaræðunum, Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi og margir með ferðavagna aftan í bílum sínum. Aðalsteinn Guðmundsson varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafði þetta að segja um umferðina rétt fyrir hádegið.

„Eftir því sem að við best vitum þá hefur bara gengið vel og stórslysalaust, allavega á okkar svæði.“
Fyrst að ekkert heyrist frá kollegum þínum annars staðar á landinu þýðir það væntanlega að engar fréttir eru góðar fréttir?
„Já, það má segja það, hjá okkur eru engar fréttir yfirleitt góðar.“

En hver vegur að heiman eru vegurinn heim og því má búast við þungri umferð í dag til höfuðborgarsvæðisins.

„Já við reiknum með því að hún fari að þyngjast upp úr hádegi og eftir hádegið eitthvað, en það er ekki byrjað ennþá, það er allavega lítil umferð til borgarinnar enn sem komið er.“
Verðið þið með sérstakar ráðstafanir í tengslum við þetta?
„Við verðum með einhverj hjá á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi eins og venjulega þegar svona stórar helgar eru, ferðahelgar, þá aukum við alltaf eftirlitið eitthvað á þessum vegum.“
Þannig að þið fylgist sérstaklega vel með við þessar aðstæður?
„Já, við gerum það,“ segir Aðalsteinn Guðmundsson varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi