76 prósenta aukning í kennaranám á framhaldsstigi

01.06.2020 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Þórisson
Rúmlega fjögur þúsund hafa þegar sótt um að komast í framhaldsnám við Háskóla Íslands í haust. Þetta er 27 prósentum fleiri en í fyrra. Aukning í kennaranám á framhaldsstigi nemur 76 prósentum. 

 

Áhugi á framhaldsnámi virðist vera að aukast miðað við aukna aðsókn í Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst.   Í liðinni viku var greint frá því í fréttum að aldrei hefðu fleiri umsóknir um framhaldsnám borist Háskólanum í Reykjavík og að aukningin næmi þrjátíu og þremur prósentum. 

Í Háskóla Íslands er umsóknarfrestur um framhaldsnám runninn út en fram til fimmtánda júní er hægt að sækja um viðbótarnám á framhaldsstigi. Þær umsóknir eiga því eftir að bætast við þær fjögur þúsund og fjörutíu umsóknir sem þegar hafa borist, en alls bárust þrjú þúsund eitt hundrað sjötíu og átta í fyrra. Þær eru því þegar tuttugu og sjö prósentum fleiri í ár en þær voru í fyrra. 

Í svari frá Háskóla Íslands við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að langflestar umsóknanna séu innlendar og að fjölgun sé í nær öllum 26 deildum skólans. Þá er sérstaklega tekið fram að fjölgun í kennaranám á framhaldsstigi nemi sjötíu og sex prósentum. 

Frestur til að sækja um nám í Háskólanum á Akureyri er til fimmtánda júní. 

Metár er í fjölda umsókna í framhaldsnám við Háskólann á Bifröst í haust. Á heimasíðu skólans kemur fram að líklegt sé að í ár hefji hátt í 200 manns þar meistaranám. Í byrjun árs hófu 32 nemendur meistaranám við skólann og á sumarönn bættust 14 nemendur í hópinn. Miðað við fjölda umsókna megi reikna með að 130 – 150 nýir nemendur komi inn á haustönn.  

Bæði Háskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst segja að allt útlit sé fyrir að fleiri sæki einnig um að komast í grunnnám í haust en í fyrra. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi