Bjartsýni um að nýtt bóluefni verði tilbúið á þessu ári

31.05.2020 - 13:08
epa08450169 Researchers from the San Sebastian company Viralgen Vector Core, specialized in the production of viral vectors for gene therapy, work in their laboratory in San Sebastian, northern Spain, 28 May 2020. Viralgen has been chosen to 'mass' manufacture a vaccine against COVID-19 by Massachusetts Brigham General Hospital (MGB) and Harvard University.  EPA-EFE/Javier Etxezarreta
 Mynd: epa
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin bindur vonir við að bóluefni gegn COVID-19-veikinni verði tilbúið fyrir áramót. Tilraunir á tíu bóluefnum eru þegar hafnar á fólki.

Leitin að bóluefni til að hemja útbreiðslu COVID-19 farsóttarinnar gengur hraðar fyrir sig en dæmi eru um áður að sögn Ann Lindstrand, deildarstjóra bólusetningardeildar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Fjölmargir keppast við að þróa bóluefni, lengst á veg komin eru bandaríska fyrirtækið Moderna sem var fyrst til að hefja tilraunabólusetningar á fólki, nokkur kínversk fyrirtæki og hópur breskra vísindamanna við Oxford-háskóla í samstarfi við Astra Zeneca. Yfir 100 tilraunir með bóluefni hafa verið gerðar á síðustu vikum, en tilraunabólusetningar eru hafnar með 10 ólík bóluefni.

Lindstrand segir í samtali við sænska ríkissjónvarpið að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin bindi vonir við að nothæft bóluefni verði tilbúið fyrir áramót. Hins vegar sé áskorunin ekki eingöngu bundin við að þróa nothæft bóluefni. Mikilvægt sé, til að byrja með alla vega, að hægt verði að framleiða nægilega marga skammta handa þeim sem eru í stærstu áhættuhópunum.

Næsta skref verði svo að finna leið til þess að dreifa bóluefninu með réttlátum hætti. Miklu skipti að koma bóluefninu til þeirra sem helst þurfi á því að halda, ekki til þeirra sem eigi mesta peninga eða þeirra þjóða þar sem bóluefnið er framleitt.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi