Andóf heldur áfram vestra

31.05.2020 - 02:56
Mynd með færslu
 Mynd: Georg Floyd
Yfirvöld í Minnesota, Georgíu, Ohio, Colorado, Denver og Kentucky auk höfuðborgarinnar Washington hafa óskað eftir fulltingi þjóðvarðliðsins. Slíkt hefur ekki gerst um áratugaskeið.

Borgirnar Los Angeles, Fíladelfía og Atlanta auk nokkurra annarra hafa boðað útgöngubann frá laugardagskvöldi til að stemma stigu við þeim miklu óeirðum sem staðið hafa undanfarið í Bandaríkjunum.

Andúðin virðist helst beinast að lögreglu enda lést George Floyd á mánudaginn var vegna harkalegra aðgerða lögreglumanns. Annað kvöldið í röð létu mótmælendur orð Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að ríkisstjórn hans myndi stöðva andóf og óeirðir sem vind um eyru þjóta.

Floyd táknmynd ofbeldisins

George Floyd hefur orðið að enn einni táknmyndinni fyrir ofbeldi gegn þeldökkum Bandaríkjamönnum og andlát hans hefur kveikt ógurlegra óeirðabál en sést hefur um árabil.

Fjöldi fólks hefur komið á staðinn þar sem hann lést og skilið eftir blómvendi eða annað til að minnast hans.

Lögreglumenn í Los Angeles skutu gúmmíkúlum að mótmælendum og lumbruðu á þeim með kylfum eftir að kveikt var I lögreglubíl í borginni.

Lögreglu og mótmælendum laust einnig saman í Chicago og New York og voru allmargir handteknir fyrir óspektir. Eins réðist lögregla gegn þeim sem brutu gegn útgöngubanni í Minneapolis. 

Friðsamleg mótmæli hafa einnig verið í Toronto í Kanada.

Donald Trump segir að ekki mega leyfa litlum hópi glæpamanna og spellvirkja að leggja borgir í rúst og eyðileggja samfélagið. Ríkisstjórnin muni bregðast við slíku af hörku. 

Kennir Antifa um ólætin

Trump kveðst jafnframt sannfærður um að Antifa hreyfingin standi að baki óeirðunum sem hann segir sverta minningu Floyds.

Uppruna hreyfingarinnar, sem hefur það að yfirlýstu markmiði sínu að berjast gegn fasisma, má rekja aftur til áttunda áratugar síðustu aldar. Þá kallaði hún sig Anti-Racist Action og stundaði að hleypa upp samkomum ný-nasista.

Heldur dofnaði yfir hreyfingunni um og eftir síðustu aldamót en eftir að Trump var kjörinn forseti hefur hún aftur skotist fram á sjónarsviðið.

Trump viðhafði ummæli sín á sama tíma og fjöldi fólks hóf mótmælagöngur um götur og stræti Minneapolis, New York, Chicago, Miami, Fíladelfíu og annarra borga.

Mannfjöldinn sönglaði „Líf blökkumanna skipta máli" og „Ég get ekki andað" líkt og Floyd endurtók í sífellu áður en hann dó. Friðsamleg mótmæli hafa einnig verið í Toronto í Kanada.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi