
Þetta var í júlí í fyrra í Nýju Suður Wales í Ástralíu. Á ónafngreindi facebook-síðu höfðu tveir menn gert með sér samkomulag. Annar þeirra vildi borga hinum 5000 ástralska dollara fyrir að brjótast inn hjá sér, binda sig og strjúka svo hátt og lágt með kústi. Samkomulagið hugnaðist báðum en örlítillar ónákvæmni gætti við samningsgerðina hjá kaupandanum, að því er virðist. Honum láðist nefnilega að nefna það við hinn pantaða innbrotsþjóf að hann stæði í flutningum. Hann flutti eina 50 kílómetra í burtu og seldi hitt húsið sitt.
Men hired for sexual fantasy in Australia break into wrong house https://t.co/ZuwotcWKMH
— BBC News (World) (@BBCWorld) May 28, 2020
Nýji íbúi hússins var þess vegna með öllu grunlaus þegar hann vaknaði einn morguninn við að tveir menn stóðu við rúm hans vopnaðir sveðjum, sem síðar reyndust reyndar vera leikmunir. Leikmunir sem áttu víst að vera hluti af þjónustunni, líkt og fram kom í lögregluskýrslum.
„Fyrirgefðu félagi“ voru víst orðin sem mennirnir með sveðjurnar kvöddu hinn grunlausa nývaknaða mann með áður en þeir óku til fundar við kaupandann til að klára pantað verk. Þar voru þeir handteknir. Þeir hafa nú verið sýknaðir af ásökunum um vopnað innbrot en dómarinn í málinu sagði málið sannarlega óvenjulegt.