Ingibjörg Sólrún varar við eftirgjöf réttinda

30.05.2020 - 07:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem nú gegnir embætti forstjóra Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE varar almenning við því að gefa of mikið eftir af réttindum sínum á tímum kórónuveirunnar. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Fréttablaðinu í dag.

Ingibjörg Sólrún segir áríðandi að koma veirunni fyrir kattarnef en það megi ekki verða lýðræði og mannréttindum að fjörtjóni í leiðinni.

Hún telur eðlilegt að fólk hafi gefið ákveðin réttindi eftir meðan faraldurinn stóð sem hæst en áríðandi sé að það sé aðeins tímabundið.

Ingibjörg segir ríkisstjórnir sums staðar hagnast á því að fólki sé meinað að mótmæla og koma saman eða jafnvel að takmarka starfsemi kjörinna fulltrúa á þjóðþingum.

Sé of mikið gefið eftir óttast Ingibjörg að erfitt kunni að verða að endurheimta tiltekin réttindi. Sömuleiðis geti verið tilhneiging hjá stjórnvöldum að skerða réttindi á krepputímum.

Þótt Ísland standi vel að vígi segir hún varhugavert hversu „pólaríseruð” umræðan sé orðin hér og kveður andrúmsloftið í stjórnmálum geta vera eitrað á stundum.

Jafnframt segir Ingibjörg að neikvæð umræða um þingið geti orðið til að almenningi finnist það til óþurftar. Það sé vond afstaða og telur hún að íslenska réttarkerfið megi við lagfæringu. Það sýni úrskurðir Mannréttindadómstóls Evrópu.

Hún hefur jafnframt uppi varnaðarorð gagnvart þeirri íslensku venju, sem komi til af fámenninu, að byggja ákvarðanatöku á einstaklingum og ýta reglum til hliðar þess vegna. Þótt það geti stundum gengið upp geti það líka verið hættulegt.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi