Greiðslur ríkis vegna hlutabóta og uppsagna samþykktar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alþingi samþykkti í gærkvöld frumvörp ríkisstjórnarinnar um greiðslu launa á uppsagnarfresti og hlutabótaleiðina. Efnahags- og viðskiptanefnd gerði í gær enn frekari breytingar á því fyrrnefnda, eftir gagnrýni frá Alþýðusambandi Íslands. Áætlaður kostnaður við það er um 27 milljarðar.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um greiðslu hluta launa á uppsagnarfresti varð að lögum á Alþingi seint í gærkvöld. Frumvarpið hefur tekið töluverðum breytingum frá því það kom fyrst inn á borð efnahags- og viðskiptanefndar, og segir Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar og þingmaður Sjálfstæðisflokks, að mikilvægasta breytingin, að hans mati, hafi verið breyting á dagsetningunni, en upphaflega var miðað við tekjufall frá og með fyrsta mars. 

„En þá var nú kannski kórónuveiran ekki komin hérna, það var ekki fyrr en um miðjan mars. Þannig að við færum þetta til fyrsta apríl, sem þýðir náttúrulega að það fjölgar í menginu,” segir hann. 

ASÍ hafði gagnrýnt frumvarpið harðlega og sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ, í bréfi til þingmanna í gær að ef frumvarpið yrði samþykkt í óbreyttri mynd, gæti það orðið mesta kjaraskerðing síðari tíma. ASÍ gerði athugasemdir við að skilyrði fyrir hlutabótum og launum á uppsagnarfresti séu mismunandi og að ríkið beinlínis hvetji til að þess að það síðarnefnda sé nýtt. Drífa bendir á að réttindi launafólks þurfi að vera tryggð við endurráðningu, enda sé forsenda laganna að skerða ekki laun heldur að koma í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækja svo endurráðning sé möguleg. Óli Björn segir nefndina hafa komið til móts við þessar áhyggjur með tvennum hætti. 

Starfsmönnum eru tryggð sömu launakjör, komi til endurráðningar innan sex mánaða. En þeir njóta hins vegar forgangs að sambærilegu starfi í allt að tólf mánuði, með áunnum réttindum samkvæmt kjarasamningum.  

Efnahags- og viðskiptanefnd áætlar að endanlegur kostnaður vegna laganna gæti orðið allt að 27 milljarðar. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi