Gagnrýna að meta eigi list-og verkgreinar saman

30.05.2020 - 08:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kennarar gagnrýna harðlega drög að matsviðmiðum fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla í náttúrufræði, samfélagsfræði, skólaíþróttum, list- og verkgreinum og upplýsinga- og tæknimennt. Í umsögnum er farið hörðum orðum um að ein einkunn sé gefin fyrir list og verkgreinar og matsviðmið í náttúrufræði sögð geta haft „neikvæð stýrandi áhrif á náttúrufræðimenntun í landinu“.

Matsviðmið á öllum námssviðum við lok grunnskóla voru sett í aðalnámskrá árið 2013. Menntamálastofnun hefur nú gengið frá drögum að sambærilegum matsviðmiðum fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla í náttúrufræði, samfélagsfræði, skólaíþróttum, list- og verkgreinum og upplýsinga- og tæknimennt. Drögin eru nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda og hafa 35 umsagnir verið birtar þegar þetta er skrifað. Umsagnarfrestur rennur út á morgun. 

Umsagnirnar eiga það sameiginlegt að gagnrýna að sömu viðmið séu fyrir list og verkgreinar. Þetta séu ólík fög með ólíkar áherslur og spurt fyrir hvað einkunn eigi að standa þegar nemandi sýni framúrskarandi námsárangur í annarri greininni en slakur í hinni. Með þessu móti sé verið að fletja út einkunnir nemenda. Þá segir í umsögn heimilisfræðikennara að það sé óskiljanlegt hvernig eigi að gefa eina einkunn fyrir list og verkgreinar í tíunda bekk. 

Náttúrufræðingar gagnrýna 

Fjórir sérfræðingar á sviði náttúrufræðimenntunar og námskrárgerðar mæla sterklega gegn því að drögin verði leiðbeinandi matsviðmið í náttúrufræði fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla. Íslendingar séu eftirbátar allra þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við í náttúruvísindum. Í umsögninni segjast þeir telja að framsetning viðmiðanna, þótt þeim sé ætlað að vera leiðbeinandi, gæti haft neikvæð stýrandi áhrif á náttúrufræðimenntun í landinu. Ekki sé nógu mikil áhersla lögð á náttúruvísindi og þau virki eins og aukaatriði á meðan aðaláherslan sé á samfélagslega þætti. Þeir lýsa sig reiðubúna til að taka þátt í að betrumbæta drögin.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi