Færeyjar verða opnaðar íslenskum ferðamönnum

30.05.2020 - 23:15
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Lögmaður Færeyja Bárður á Steig Nielsen tilkynnti á blaðamannafundi í dag að eyjarnar yrðu opnaðar á ný fyrir ferðamönnum frá Íslandi 15. júní næstkomandi.

Auk þess muni Færeyingar taka fagnandi á móti gestum frá öðrum svæðum innan danska ríkisins. Þeim ferðamönnum verði ekki lengur gert skylt að fara í fjórtán daga sóttkví.

Færeyska flugfélagið Atlantic Airways mun því fjölga flugferðum til og frá flugvellinum í Vogum þegar um miðjan júní.

Jóhanna á Bergi, forstjóri flugfélagsins sagði í viðtali við Kringvarp Føroya að flogið yrði frá Færeyjum til Kaupmannahafnar á hverjum degi en ekki aðeins fjórum sinnum í viku eins og verið hefur undanfarið.

Einnig er stefnt að því að hefja á ný flug milli Færeyja og Íslands en þjónusta um borð í flugvélum félagsins mun þó verða mjög takmörkuð áfram.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi