Þingnefnd hætt að fjalla um frumvarp Katrínar

29.05.2020 - 14:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er hætt umfjöllun sinni um frumvarp forsætisráðherra varðandi breytingar á upplýsingalögum. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG í nefndinni, lagði þetta til á fundi nefndarinnar í morgun að höfðu samráði við forsætisráðherra. Þetta þýðir að standi vilji til þess að leggja fram frumvarp um sama efni þarf að leggja fram nýtt frumvarp. Það mun væntanlega ekki gerast á þessu þingi.

Kolbeinn var framsögumaður málsins í nefndinni. Í bókun sinni segir hann að ýmsar spurningar hafi komið upp sem kalli á umfangsmeiri skoðun en færi sé á að fara í nú.

Frumvarpið gerir opinberum aðilum skylt að leita eftir afstöðu þriðja aðila áður en þeir láta af hendi upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga. Óhætt er að segja að frumvarpið hafi mælst illa fyrir hjá fjölmiðlum. Þórir Guðmundsson, fréttastjóri Sýnar, kallaði það „skaðræði“. Stjórnvöld væru að bregða fæti fyrir upplýsingagjöfina með því að gefa einkaaðilum færi á að trufla hana og tefja. 

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður úrskurðarnefndar um upplýsingamál, fer sömuleiðis óblíðum höndum um frumvarpið í minnisblaði sínu til þingnefndarinnar. Það blasi við að frumvarpið muni valda enn tíðari og lengri töfum á afgreiðslu erinda og tefja afgreiðslu gagna sem úrskurðað hefur verið um aðgang að. 

Hann bendir jafnframt á að aðkoma þriðja aðila, eins og frumvarpið kveður á um, sé ekki að finna í norræni löggjöf um upplýsingarétt almennings. Þá eigi það ekki við nein rök að styðjast að þörf hafi verið á þessum breytingum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Samtök atvinnulífsins hafa fagnað breytingunum og kallað eftir því að þeir sem óski eftir upplýsingum verði látnir greiða fyrir þær. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði að sér hugnaðist það ekki í hádegisfréttum RÚV í dag.. „Nú er málið auðvitað á forræði þingsins. En eftir því sem ég sé þá kalla allar þessar umsagnir á miklu meiri vinnu í þetta mál þannig að ég hef það ekki í forgangi að þessu máli verði lokið núna. Ég tel að það sýni að við verðum að skoða þetta miklu betur.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi