Svíar svekktir og finnst þeir settir út í horn

29.05.2020 - 16:03
epa08192260 Swedish Foreign Minister Ann Linde talks with Russian Foreign Minister Sergei Lavrov (not pictured) during their meeting at the Russian Foreign Ministry guest house in Moscow, Russia, 04 February 2020.  EPA-EFE/MAXIM SHIPENKOV
Ann Linde utanríkisráðherra Svíþjóðar Mynd: EPA - RÚV
Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, er svekkt að landið skuli ekki vera hluti af samkomulagi Danmerkur og Noregs um ferðir milli landanna. „Við höfðum vonast eftir sameiginlegri, norræni lausn en það varð ekki. Eftir sem áður eigum við í virku samtali við ráðamenn í Danmörku, Noregi, Finnlandi og Íslandi og erum með nokkrar hugmyndir.“

Þetta kemur fram á vef DR. 

Danir og Norðmenn tilkynntu í morgun að íbúar landanna mættu ferðast á milli án þess að þurfa að fara í sóttkví frá og með 15. júní. Þá hefur sömuleiðis verið opnað á ferðir milli Íslands og Danmerkur frá sama tíma. Reiknað er með að það skýrist á næstunni hvernig ferðum milli Íslands og Noregs verði háttað.

Ferðalög milli landanna verða þó ekki án takmarkana; til að mynda mega þeir erlendu ferðamenn sem ferðast til Danmerkur ekki bóka gistingu í Kaupmannahöfn.

Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir það vægt til orða tekið að menn séu sárir að landið skuli hafa verið skilið eftir í þessu samstarfi. Það eigi sérstaklega við svæðin í kringum landamærin. 

Í sama streng tekur Mikael Damberg, innanríkisráðherra Svíþjóðar í skriflegu svari til Berlingske. Þar varar hann við því að „reisa múra“ og „veikja samstarf norrænu landanna.“ Það hafi verið sameiginleg sýn allra að Norðurlöndin skuli virka sem ein heild.

Svíar hafa mátt þola nokkuð harða gagnrýni fyrir þá leið sem þeir völdu í baráttunni við kórónuveiruna.  Nú hafa 4.350 látist af völdum COVID-19 í Svíþjóð. Anders Tegnell, sóttvarnalæknir, sagði þó að nýsmitum hefði fækkað í hópi eldri borgara á daglegum stöðufundi stjórnvalda í dag en hjúkrunarheimili í landinu hafi orðið illa fyrir barðinu á farsóttinni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi