Leynist í Covid-krísunni vegvísir að aukinni vellíðan?

29.05.2020 - 15:32
Mynd: piqsels / piqsels
Það eru engin merki um að heimsfaraldurinn og samfélagslegar breytingar vegna hans hafi haft neikvæð áhrif á líðan landsmanna, þvert á móti. Mánaðarlegar kannanir Landlæknis benda til þess að fleirum hafi liðið vel andlega, þá mánuði sem faraldurinn stóð sem hæst, en á sama tíma í fyrra. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri á lýðheilsusviði Landlæknisembættisins, spyr sig hvort krísur geti hjálpað okkur að finna lykilinn að andlegri vellíðan, til frambúðar. 

Skrifar breytinguna á faraldurinn 

Alma Möller, landlæknir greindi frá því á síðast upplýsingafundi almannavarna á mánudag að svo virtist sem faraldurinn hefði haft jákvæð áhrif á líðan almennings. „Það er ekkert sem bendir til þess að faraldurinn hafi haft neikvæð áhrif á heilsuhegðun og líðun landsmanna í mars og apríl, um flest sjáum við merki um jákvæð áhrif.“

Frá árinu 2016 hefur Landlæknisembættið gert mánaðarlegar kannanir á lýðheilsu. Fólk er til dæmis spurt hvort það metur andlega heilsu sína góða, mjög góða, sæmilega eða lélega, hversu marga klukkutíma það sefur að jafnaði á hverri nóttu, hvort það finni fyrir mikilli streitu í daglegu lífi og hvort það sé oft einmana. Úrtakið á að endurspegla þjóðina og þannig er hægt að skoða hvernig líðan almennings breytist mánuð fyrir mánuð.  „Við erum að sjá breytingar núna sem eru ekki alveg sambærilegar, ekki einhverjar árstíðabundnar breytingar heldur breytingar sem er líklegt að hafi orðið vegna þess að aðstæður í samfélaginu í mars og apríl voru ólíkar aðstæðum í venjulegu árferði,“ segir Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri hjá embætti Landlæknis. „Það hafa einhverjar aðstæður skapast í mars og apríl, í þessu Covid-tímabili sem hefur haft jákvæð áhrif á andlega líðu fjöldans, ef við getum sagt svo.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Dóra GUðrún Guðmundsdóttir/
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir.

Fleiri nær alveg lausir við einmanaleika

Þetta er spurning um nokkur prósentustig, en það merkilega er að þróunin er víðast hvar í jákvæða átt. Heilt yfir sagði fólk andlega heilsu sína betri í vor en í fyrravor og vorið þar á undan, munur upp á þrjú til níu prósentustig. Færri mátu andlega heilsu sína slæma. Heilt yfir fundu færri fyrir mikilli streitu, hlutfallið var 26% í apríl í fyrra en 17% í ár. Fleiri náðu fullnægjandi svefni og það fjölgaði í hópi þeirra sem finna sjaldan eða aldrei fyrir einmanaleika, munur upp á 12 prósentustig. Það má líka greina jákvæða þróun innan þessa árs, almennt virðist fólki hafa liðið aðeins betur í mars og apríl en í febrúar. 

Margir hefðu kannski haldið að þróunin yrði akkúrat í hina áttina. Var þetta ekki erfiður tími? Álagstími? Fólk var að fóta sig í nýjum aðstæðum, gat ekki hitt suma ættingja sína, glímdi jafnvel sjálft við sýkinguna. Kannanir sýndu að um helmingur þjóðarinnar var hræddur um að smitast af kórónuveirunni og margir óttuðust að smita fólk í áhættuhópum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Andrew Neel - Pexels
Um tíu prósent þjóðarinnar segjast oft einamana. Það hlutfall hefur lítið breyst en það hefur fjölgað í hópi þeirra sem finna sjaldan eða aldrei fyrir einmanaleika.

Vill hægja á hraðanum í samfélaginu

Dóra Guðrún segir mikilvægt að skoða hvað það var sem leiddi til þessara jákvæðu breytinga og hvernig megi varðveita þær. Hún telur nærtækast að horfa til þess sem breyttist í daglegu lífi fólks, umgjarðarinnar, þess að margt fólk var meira heima, varði meiri tíma með fjölskyldu sinni og það komst meiri kyrrð á daglegt líf. „Til dæmis það að fólk sofi lengur, það er auðvelt að hugsa, já þú getur sofið aðeins lengur ef það tekur þig ekki jafn langan tíma að mæta fyrir framan tölvuna á Teams-fund eins og að hafa þig til og keyra langa vegalengd og mæta á fundinn, sama með tímann sem fór í að keyra heim í eftirmiðdaginn. Þetta er allt í einu tími sem þú getur nýtt í eitthvað annað. Líka það að það var ekki hægt að fara á alls konar viðburði eða mæta á ræktina snemma á morgnana, maður hugsar svona upphátt og veltir fyrir sér, hvað verður til þess að fólk getur sofið betur og varið fleiri stundum með fjölskyldunni. Nú vitum við samt líka að það hefur örugglega verið mikið álag á margar fjölskyldur, sérstaklega fjölskyldur með ung börn, að vera með kröfu eða væntingar um að vinna en samt að vera að sinna börnum og námi þeirra, það er klárlega aukið álag og auðvitað ekki gott til lengri tíma en við gætum skoðað sem samfélag, hvort við getum nýtt eitthvað af þessari félagslegu tilraun sem við fórum í gegnum.“

Hún segir eftirsóknarvert að finna leiðir til þess að hægja á hraðanum í samfélaginu. „Þannig að við þurfum ekki að vera á eins mörgum stöðum og kannski skoða möguleikann á því hvort það sé hægt að vinna meira heima þannig að það hafi hvorki neikvæð áhrif á vinnuna né fjölskylduna, skoða hvað er hægt að gera til að styðja fjölskyldur í því að vera meira saman og  meira til staðar fyrir hvert annað en samt sem áður að hafa vinnu og eiga í sig og á þannig að fólk lendi ekki í fjárhagserfiðleikum.“

Hönd með armbandsúr á stýri.
 Mynd: Daniel Nanescu - Splitshire

Vísbendingar um jákvæð áhrif á skólastarf

Í samantekt embættisins um áhrif COVID á lýðheilsu segir að það sé mikilvægt að halda í þennan sveigjanleika, að geta unnið heima, án þess að það bitni á framleiðni og gæðum vinnunnar. Landlæknir hvetur vinnuveitendur til að eiga lausnamiðuð samtöl við starfsmenn um þetta. Embættið hvetur líka skólastjórnendur og kennara til að skoða hvort rétt sé að halda í einhverjar þeirra breytinga sem gerðar voru á skólastarfi. Á fundum embættisins með fulltrúum skóla hefur komið fram að margar breytinganna, eins og að hafa færri saman í hóp og stytta skóladaginn, hafi haft góð áhrif á líðan bæði nemenda og starfsfólks. Það hafi verið minna um rót milli stofa, minna um hegðunarvanda og nemendur hafi átt auðveldara með að einbeita sér. 

Það hafi tekist að hlúa að þeim sem voru einir

Rannsóknir sýna að félagsleg tengsl eru sá þáttur sem skiptir mestu máli fyrir líðan. Það kemur kannski ekki á óvart að fólk hafi sofið meira á Covid-tímanum en þetta með einmanaleikann stangast á við þau skilaboð sem við höfum fengið, um að aðstæðurnar gætu ýtt undir einmanaleika. Það sama gildir um álagið, þegar faraldurinn stóð sem hæst var mikið talað um að nú væri samfélagið undir miklu álagi. „Við ræddum þetta sem samfélag að það væri álag og við þyrftum að hlúa vel að okkur. Ég vona að við höfum náð því, við vorum meðvituð um að þetta var erfitt og það mætti finnast þetta erfitt og upplifa álag. Ég held líka að fólk hafi verið meðvitað um að hringja oftar í eldra fólk sem var í sjálfskipaðri sóttkví.“

Fólk drakk minna og sumir byrjuðu að hreyfa sig

Kannanir Landlæknis sýna líka að sumir úr hópi þeirra sem ekkert hreyfðu sig fyrir fóru að hreyfa sig svolítið, kannski skreppa í heilsubótargöngu. Svo drakk fólk minna og reykti síður. Dóra Guðrún segir að þetta séu allt verndandi þættir, verkfæri sem ýta undir betri líðan ef þau eru notuð markvisst. 

Vondur tími fyrir þá sem höfðu það verst fyrir

En það má ekki bara einblína á meðaltölin. Dóra bendir á að sumir hafi ekki haft tök á að sofa meira eða eiga fleiri góðar samverustundir með sínum nánustu, hafi jafnvel ekki haft neinn til að vera í sambandi við. Fleiri hringdu í hjálparsíma Rauða krossins í sjálfsvígshugleiðingum, tilkynningum um heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum fjölgaði, svo dæmi séu nefnd. Dóra segir upplýsingar frá heilsugæslunni benda til þess að litlum hópi sem stóð höllum fæti fyrir líði verr nú. Sá hópur hafi ekki stækkað en vanlíðanin sé meiri. Þetta rímar við niðurstöður rannsókna á líðan ungmenna eftir hrun. „Meirihluta þeirra leið betur eftir hrunið þegar þau voru í nánari tengslum við foreldra sína og áttu auðveldara með að fá umhyggju frá þeim, en þeim 5% sem áttu ekki auðvelt með það, þeim leið mun verr.“

Hætt við að vanlíðan aukist á næstu mánuðum

Svo er annað. Þó hingað til virðist heildaráhrif faraldursins á líðan hafi verið jákvæð er hætt við því að á næstu mánuðum fari að sjást neikvæðari áhrif. Þekkt er að fjárhagserfiðleikar geta haft neikvæð áhrif á líðan. „Margir hafa misst vinnuna en það er kannski ekki ennþá komið að því að fólk hafi ekki nóg í sig og  á og nái ekki endum saman en það gæti verið eitthvað sem við horfum fram á ef fólk nær ekki að finna vinnu á næstu mánuðum.“

Er krísan sjálf kannski drifkrafturinn?

Day 065: Today's 365 shot is for FGR and "Show us your smile". Unfortunately I'm unable to do a decent grin on demand, and without a autofocussing nifty fifty lens I really wasn't in the mood for a facial shot today. So quick,
 Mynd: flickr.com

Dóra hefur rannsakað áhrif efnahagshrunsins á líðan fólks og niðurstaðan var svipuð og nú, fólk var meira heima, varði meiri tíma með fjölskyldunni og leið almennt betur um tíma. Svo fjaraði undan þessu eftir því sem á leið. 
Það teiknast kannski upp ákveðið krísugraf. Er kannski ekki nóg að breyta samfélaginu, gera fólk kleift að vinna minna eða vera meira með sínum nánustu? Getur verið að krísuástandið sjálft hafi haft góð áhrif á líðan, sett líf fólks í annað samhengi og fengið það til að hlúa betur að sér og sínum? Dóra segir áhugavert að velta því fyrir sér. „Þetta er góð spurning, ef við náum að breyta öllum þessum þáttum, þannig að fólk sofi betur, sé meira saman og þess háttar, þá erum við í raun að virkja alla þessa verndandi þætti en stóra spurningin er, getum við gert það þegar við erum ekki undir krísu? Höfum við úthald í það?“

Þarf dauðann eða aðrar ógnir til? 

Dóra hefur sérhæft sig í hamingju- og vellíðunarrannsóknum og það sem vakti áhuga hennar á þeim í upphafi var sú staðreynd að það fólk sem telur sig hamingjusamast er oft fólk sem hefur gengið í gegnum einhverja erfiðleika. „Jafnvel staðið frammi fyrir dauðanum og í framhaldinu farið að endurmeta hvað það er sem virkilega skiptir máli í lífinu. Mér finnst svo áhugavert að skoða hvort það sé hægt að ná þessum þroska og tilgangi án þess að standa frammi fyrir einhverri ógn, erfiðleikum eða dauðanum. Það sem triggerar þessa verndandi þætti hjá okkur, það að við fórum að sofa betur, drögum úr streitu, förum að rækta samskipti við fjölskyldu og vini í gegnum Zoom og vera í sambandi við fólk sem við kannski vorum ekki búin að vera í sambandi við lengi. Getum við í rauninni virkjað þessa þætti án þess að standa frammi fyrir ógn og getum við viðhaldið þeim, það er áhugaverða spurningin. Því við sáum að efnahagsþrengingarnar virtust hafa jákvæð áhrif, fólk fór að vera meira saman og hlúði betur að börnunum, þetta virtist hafa fjarað svolítið út, minni samverustundir, minni hamingja hjá ungmennum. Svo finnum við aftur núna að þetta ástand kveikir á þessum jákvæðu þáttum, og núna er þetta ástand búið. Það sem ég hef gríðarlegan áhuga á að skoða er getum við skapað þessar aðstæður í samfélaginu sem kveikja á þessum verndandi þáttum sem láta okkur líða betur, upplifa sterkari tilgang með lífinu og njóta lífsins betur.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi