Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fólk felmtri slegið vegna falsfrétta

29.05.2020 - 03:40
Mynd með færslu
 Mynd: Pinterest
Margskonar tíðindi, tengd kórónuveirufaraldrinum, sem eiga sér litla sem enga stoð í veruleikanum hafa valdið uppnámi og skelfingu víða í Asíu.

Frá því að tekið var að beita þungum sektum og fangelsisdómum sumstaðar í Asíu fyrir að brjóta gegn útgöngubanni hefur bylgja blekkinga og villandi upplýsinga flætt um veraldarvefinn.

Myndband af manni nokkrum sem átti að hafa verið skotinn til bana við eftirlitsstöð á Filippseyjum hefur farið sem eldur í sinu um samfélagsmiðla. Upptakan sýnir í raun lögreglumenn á æfingu.

Margir notendur samfélagsmiðla brugðust ókvæða við þeirri hræðilegu valdbeitingu lögreglu sem þeir töldu sig hafa orðið vitni að. Mögulega voru þau líka viljugri að trúa því versta í ljósi frétta af harkalegum aðgerðum gegn eiturlyfjasölum í landinu.

Öðrum fannst maðurinn jafnvel hafa verðskuldað örlög sín enda hefði hann greinilega ætlað að sniðganga eftirlitsstöðina freklega. Það bergmálar viðbrögð þeirra sem fagnað hafa einurð Dutertes forseta í baráttu sinni.

Sömuleiðis hafa gamlar upptökur af ógurlegum troðningi í stórmarkaði sem eiga að sýna óðagot og skelfingu vegna yfirvofandi vöruskorts í Malasíu farið á flug á Facebook í Tælandi.

Meint ástæða vöruskortsins áttu að vera harkalegar reglur um útgöngubann og óttuðust Tælendingar svipuð örlög. Myndskeiðið reyndist svo eftir allt saman sýna ástríðufulla Brasilíumenn að reyna að gera góð kaup á útsölu í nóvember 2019.

Það er fólk af öllu sauðahúsi sem ástundar þessi loddarabrögð og í margvíslegum tilgangi. Einhverjir beita þeim til að varpa rýrð og skapa andúð á stjórnvöldum, aðrir eru að reyna að skapa sundrungu milli fólks af ólíkum trúarbrögðum og enn aðrir gera það af prakkaraskap.

Það sem sameinar vélabrögðin er að þau ná oft mjög mikilli útbreiðslu en sérfræðingar segja að því traustari sem upplýsingagjöf stjórnvalda sé því minni líkur séu á að fréttir af þessu tagi valdi ógn og skelfingu.