Fjórir skólar hlutu sæti í úrslitum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Fjórir skólar hlutu sæti í úrslitum

29.05.2020 - 18:35
Síðustu tveir undanriðlarnir voru kláraðir í Skólahreysti í Laugardalshöll í dag. Heiðarskóli og Grunnskólinn á Hellu fögnuðu sigri í sínum riðlum og tveir skólar til viðbótar hlutu sæti í úrslitum. Úrslitin fara fram í Laugardalshöll annað kvöld.

Keppni í fyrri undanriðlinum hófst klukkan 14:30 í Laugardalshöll í dag. Þar kepptu níu skólar; Brekkubæjarskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar, Grunnskóli Bolungarvíkur, Grundaskóli, Heiðarskóli Keflavík, Hólabrekkuskóli, Holtastkóli, Súðavíkurskóli og Vogaskóli.

Þar var hart barist er baráttuandinn skein af keppendum en Heiðarskóli úr Reykjanesbæ reyndist hlutskarpastur og tryggði þar með sæti sitt í úrslitum á morgun.

Síðari undanriðill dagsins fór fram síðdegis þar sem tíu skólar öttu kappi; Flóaskóli, Flúðaskóli, Grunnskóli Hellu, Grunnskólinn í Hveragerði, Hörðuvallaskóli, Hvolsskóli, Klébergsskóli, Salaskóli, Smáraskóli og Vatnsendaskóli.

Baráttan var þar ekki síðri og einbeitingin mikil. Grunnskólinn á Hellu bar þó sigurorð af keppinautum sínum og varð þá sjötti skólinn til tryggja sæti sitt. Átta skólar keppa í heildina í úrslitum og féllu tvö sæti í hlut þeirra skóla utan toppsætis hvers riðils sem náðu bestum árangri. Flóaskóli lenti í öðru sæti í síðari riðli dagsins og var árangur skólans svo góður að sæti í úrslitum hlaust. Árbæjarskóli er þá áttundi skólinn sem keppir til úrslita í Laugardalshöll annað kvöld.

Skólarnir átta sem etja kappi á morgun eru eftirfarandi: Varmahlíðarskóli, Lundaskóli, Grunnskóli Húnaþings Vestra, Lindaskóli, Heiðarskóli, Grunnskólinn á Hellu, Árbæjarskóli og Flóaskóli.

Keppni í úrslitum hefst klukkan 19:40 í Laugardalshöll á morgun og verður sýnt beint frá henni á RÚV.