Dæmdur fyrir morð og fær áfram að vera á Íslandi

29.05.2020 - 16:42
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Redouane Naoui sem Útlendingastofnun vildi senda úr landi eftir að hann var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morð á veitingastaðnum Monte Carlo. Dómurinn taldi slíka annmarka hafa verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar og síðar kærunefndar útlendingamála að óhjákvæmilegt væri að fella úrskurðinn úr gildi. Naoui fær því að vera áfram á Íslandi þegar hann hefur afplánað sinn dóm.

Redouane Naoui fluttist til Íslands fyrir 16 árum. Hann fékk dvalarleyfi hér ári seinna á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara og búsetuleyfi árið 2010.  Hann á börn með tveimur íslenskum konum og hafa mæðurnar farið með forsjá þeirra. Hann hefur þó notið umgengnisréttar að höfðu samráði við mæðurnar.

Árið 2011 var hann dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir morð á veitingastaðnum Monte Carlo. Dómurinn var staðfestur í Hæstarétti og tveimur árum seinna tók Útlendingastofnun þá ákvörðun að vísa bæri honum úr landi. Honum var jafnframt bannað að koma aftur í 20 ár.  Kærunefnd útlendingamála staðfesti þá ákvörðun þremur árum seinna. 

Tveimur mánuðum eftir að ákvörðun kærunefndarinnar fékk Naoui heimild til að hefja afplánun á Vernd og rúmum tveimur árum seinna átti að veita honum reynslulausn. Hann þótti vera fyrirmyndarfangi, hafði aldrei lent upp á kant við aðra í fangelsinu og látið öll vímuefni vera. Naoui hætti hins vegar við reynslulausnina þar sem til stóð að vísa honum úr landi nánast um leið.  

Naoui lét reyna á brottvísunina fyrir dómstólum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu hans en stytti endurkomubannið niður í 10 ár.

Landsréttur hefur nú snúið þeim dómi við og fellt ákvörðun Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála úr gildi. Landsréttur segir Útlendingastofnun ekki hafa gætt þess að afla fullnægjandi upplýsinga um tengsl Naoui við börn sín þótt ákvörðunin hafi verið byggð á því að hann hefði ekki notið umgengnisréttar við börnin sín áður en hann fór í fangelsi. 

Naoui hafi verið látinn bera hallan af því að hafa ekki lagt fram gögn varðandi umgengnisréttinn. Og hvorki Útlendingastofnun né kærunefnd útlendingamála hafi átt frumkvæði að því að afla þessara upplýsinga og þær hafi ekki komið fram fyrr en undir rekstri málsins fyrir dómstólum.  Þá hafi komið í ljós að hann hafi notið umgengnisréttar við bæði börnin áður en hann fór í fangelsi.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi