Vorhugur virðist í fjárfestum heimsins

28.05.2020 - 04:28
A Chinese investor monitors stock prices at a brokerage house in Huaibei in central China's Anhui province Friday, Jan. 15, 2016. China's Shanghai stock index sank to its lowest level in more than one year on Friday, as renewed concerns about
 Mynd: AP - CHINATOPIX
Aukinnar bjartsýni gætir um að lifna muni yfir hagkerfum heimsins sem hefur orðið til þess að hækkun hefur orðið á hlutabréfamörkuðum í dag. Fjárfestar virðast horfa framhjá auknum núningi milli Bandaríkjanna og Kína þótt greina megi áhyggjur af horfum á heimsvísu.

Þó að nokkur lækkun yrði á hlutabréfamarkaði í Hong Kong virðist hún minni en við var búist þrátt fyrir breytta stöðu héraðsins gagnvart Bandaríkjunum.

Fjárfestar horfa vonglaðir til slökunar á útgöngubanni víða um heim andstætt því sem við mætti búast þegar viðskiptastríð gæti blasað við milli Bandaríkjanna og Kína. Hvarvetna, frá Asíu um Evrópu og til Bandaríkjanna er fólk smám saman að koma úr híði sínu eftir nokkurra vikna innilokun vegna heimsfaraldursins.

Til að auka enn á vorhuginn sem er í uppsiglingu hafa borist fréttir af því að Disney hyggist aftur opna hlið skemmtigarða sína í Florida og ríkisstjórinn í Nevada hefur fallist á að spilavíti í Las Vegas verði opnuð á ný með takmörkunum.

Gríðarháum fjárhæðum er og verður varið til að hvetja efnahaginn áfram auk þess sem seðlabankar heimsins hafa lagt sitt af mörkum til að viðskiptalífið geti blómstrað á ný. Nú ætlar Evrópusambandið sömuleiðis að spýta í lófana og hefja viðamestu úrræði sögunnar fyrir sambandsríkin með styrkjum og lánum.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi