Tvö þúsund ára gólf sveitaseturs fannst nærri Veróna

28.05.2020 - 02:11
Mynd með færslu
 Mynd: Comune di Negrar di Valpolicella - Facebook
Nánast óaðfinnanlegt mósaík-lagt gólf frá tímum Rómaveldis fannst undir vinviðarakri nærri Veróna á Ítalíu á dögunum. Uppgötvunin varð þar sem fornleifafræðingar fundu leifar sveitaseturs árið 1922. Setrið er talið er vera frá þriðju öld okkar tímatals. 

Svæðið var að mestu látið óáreitt frá uppgötvun rústanna fyrir nærri öld. Uppgröftur hófst að nýju í fyrrasumar á vegum fornleifa-, lista- og landslagsnefndar Veróna. Fornleifafræðingar héldu uppgreftri áfram í október og aftur í febrúar, en svo lagðist hann af vegna kórónuveirufaraldursins. Þegar tækifærið gafst að nýju tóku fornleifafræðingar til handa, og fundu mósaík-gólfið á nokkurra metra dýpi undir vínviðnum.

Á Facebooksíðu bæjaryfirvalda í Negrar di Valpolicella segir að yfirvöld ætli nú að vinna með eiganda landsins að því að finna bestu leiðina til þess að gera þennan merka fund aðgengilegan. 

Um tvö þúsund ára hleðslusteinar birtust einnig í Róm, þegar jörðin gaf undan og pyttur myndaðist við algyðishofið í borginni á meðan útgöngubann var í gildi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi