Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Takmarkanir innleiddar á ný í Suður-Kóreu

28.05.2020 - 08:17
epaselect epa08444120 A man wearing a face mask walks past Seoul city hall in Seoul, South Korea, 26 May 2020. Millions of students throughout the country are expected to return to school on 27 May.  EPA-EFE/JEON HEON-KYUN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Takmarkanir til að hefta útbreiðslu kórónuveiru hafa verið innleiddar á ný í Suður-Kóreu, en tugir greindust þar smitaðir síðasta sólarhring. Heilbrigðisráðherra landsins segir mögulegt að gripið verði enn strangari aðgerða ef ekki verði lát á. 

Heilbrigðisyfirvöld í Suður-Kóreu sögðu í morgun að 79 tilfelli hefðu greinst síðasta sólarhring, mikill meirihluti þeirra í höfuðborginni Seoul. þetta er mesti fjöldi sem greinist á einum degi í Suður-Kóreu síðan 5. apríl.

Park Neung-hoo heilbrigðisráðherra sagði að opinberum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal söfnum, listamiðstöðvum og almenningsgörðum yrði lokað næsta hálfan mánuðinn og hvatti hann fyrirtæki til að taka upp að nýju sveigjanlega vinnutilhögun fyrir starfsfólk, auk annarra ráðstafana.

Ráðherrann sagði að gripið yrði til enn harðari aðgerða ef fimmtíu eða fleiri greindust smitaðir í landinu í að minnsta kosti sjö daga í röð.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV