Segir Isavia ANS ekki geta sagt upp starfsfólki annarra

28.05.2020 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Framkvæmdastjóri Isavia ANS segir félagið sjálfstætt félag og því geti uppsagnir ekki farið eftir starfsaldurslista sem taki þá til fleiri félaga. Flugumferðarstjórar telja listann gilda og því séu uppsagnir hundrað flugumferðarstjóra andstæðar honum.

 

Isavia ANS hefur sagt upp hundrað flugumferðarstjórum í flugstjórnarmiðstöðinni á Reykjavíkurflugvelli, en þeir sinna alþjóðaflugi á Norður-Atlantshafi og aðflugsstjórn fyrir Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll og í framhaldinu boðið þeim nýjan ráðningarsamning upp á 75% vinnu. Þetta er gert vegna færri verkefna, en Ásgeir Pálsson framkvæmdastjóri Isavia ANS segir flugumferðina núna vera 10-20% af því sem venjulega er. Arnar Hjálmsson formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra segir að samkomulag sem gert var árið 2011 um starfsaldurslista, svipaðan því og þekkist hjá flugmönnum, hann gildi fyrir Isavia í heild og því hafi uppsagnir átt að miðast við starfsaldur.

„Það er mjög líklegt miðað við yfirlýsingar sem ég hef heyrt að FÍF íhugi að fara með þetta jafnvel í Félagsdóm, þannig að ég vil auðvitað ekki tjá mig mjög mikið um málið,“ segir Ásgeir Pálsson framkvæmdastjór Isavia ANS.

Isavia var skipt upp í móðurfélag og dótturfélög um síðustu áramót þar sem eru Isavia ohf. sem rekur Keflavíkurflugvöll og ýmsa stoðþjónustu fyrir dótturfyrirtækin, Isavia ANS sem hér um ræðir og sér um flugleiðsöguþjónustuna og svo Isavia Innanlands, sem er með innanlandsflugvallakerfið.

„Þetta eru allt aðskilin fyrirtæki á aðskildri kennitölu og aðskildan efnahag, þannig að þetta gengi ekkert upp ef að eitt fyrirtæki þarf að fækka starfsmönnum hjá sér vegna óviðráðanlegra ástæðna, að það  eigi að fara segja upp starfsmönnum hjá öðru fyrirtæki. Það auðviatð gengur auðvitað ekkert upp,“ segir

Formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra telur hins vegar að samkomulagið frá 2011 sé í gildi. Isavia hafi verið skipt upp í móður- og dótturfélög um síðustu áramót, en gildandi kjarasamningur hafi verið gerður eftir það án þess að hrófla við samkomulaginu frá 2011 um starfsaldurslistann.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi