Huawei málið: Enn kólnar milli Kanada og Kína

28.05.2020 - 03:29
Erlent · Huawei · Kanada · Kína
Mynd með færslu
Landar og velunnarar Meng sýndu henni stuðning sinn utan við dómshúsið í Vancouver Mynd:
Dómari í Kanada úrskurðaði í gær að Meng Wanzhou, fjár­mála­stjóri og dóttir stofnanda kín­verska tæknifyrirtækisins Huawei, skyldi framseld til Bandaríkjanna.

Hún var handtekin í Vancouver Kanada í desember 2018 og stendur frammi fyrir ákæru af hálfu bandarískra yfirvalda fyrir ýmsa glæpi, þar á meðal pen­ingaþvætti, banka­svik og fyr­ir að komast yfir viðskipta­leynd­ar­mál­ með ólöglegum hætti.

Meng hefur gengið laus gegn tryggingu með ströngum skilyrðum og mun halda áfram að gera það uns málaferlum gegn henni lýkur. Samskipti Kína og Kanada löskuðust mjög vegna málsins og niðurstaða kanadíska dómarans verður ekki til að bæta þau.

Kínastjórn brást á sínum tíma við með því að setja viðskiptahömlur af ýmsu tagi á kandadískar vörur auk þess sem tveir Kanadamenn, stjórnarerindreki og kaupsýslumaður, voru hnepptir í varðhald skömmu eftir handtöku Meng.

Þeir hafa verið í haldi í yfir fimmhundruð daga. Kanadastjórn hefur kallað eftir að þeir verði látnir lausir ásamt þeim þriðja sem bíður aftöku í Kína. Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur fullyrt að Kínverjar beri ekki skynbragð á óháð dómskerfi sem beri að ákveða örlög Meng.

Mótmælendur stóðu fyrir utan dómhúsið þegar úrskurðurinn var kveðinn upp og héldu á spjöldum með áletrunum á borð við „Framseljið Meng Wanzhou”, „Ekkert Huawei í Kanada” og „Kanada - Ekki leyfa Kína að kúga okkur”.

Yfirlýsing barst frá Huawei þar sem vonbrigðum var lýst með niðurstöðuna en jafnframt að það hlakkaði til þeirrar stundar þegar Meng yrði loksins hreinsuð af öllum áburði. Skilaboðin frá kínverska sendiráðinu í Ottawa voru á þá lund að Bandaríkin væru að reyna að knésetja Huawei og að Kanada bæri jafna sök í því.

Allur málatilbúnaðurinn gegn Huawei væri pólítískt grafalvarlegur og að kanadísk yfirvöldu ættu þegar í stað að veita Meng frelsi og leyfa henni að snúa heim til Kína.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi